Stelpurnar okkar fengu að sofa aðeins út í dag og voru vaktar um kl. 10:00. Þegar allar voru komnar á fætur fengu þær smá næringu og fóru svo strax í að taka til og græja sig fyrir daginn. Í framhaldi af því áttum við smá morgunstund saman og spjall, margir sögumenn í hópnum og því var þetta mjög huggulegt og áhugavert. Eftir morgunstundina var komið að úrslitaumferð í brennókeppninni, mikil spenna fyrir leikjum dagsins og mikill æsingur. Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir hvað þær eru ótrúlega duglegar að hvetja hver aðra, algjörlega aðdáunarvert.
Eftir úrslitaleikinn í brennó var boðið upp á sturtur og pott. Flestar fóru í pottinn en aðrar vildu aðeins fara í sturtu. Þær sem vildu fengu kaffiskrúbb í sturtunni, smá dekur og dúll fyrir veislukvöldið. Stelpurnar gerðu sig svo til og starfsmennirnir fléttuðu og greiddu þeim sem vildu.
Veislukvöldið gekk mjög vel framan af en þegar líða fór á kvöldmatinn var orðin afskaplega mikil spenna í hópnum og mikil læti. Starfsfólkið ákvað því að breyta planinu aðeins og fara í kvöldgöngu í stað þess að halda hefðbundna veislukvöldvöku, það var mat starfsmanna að stelpurnar þyrftu smá hreyfingu. Gangan gekk vonum framar (náttúran skartaði sínu allra fegursta!) og þegar heim var komið átti hópurinn dásamlega stund saman þar sem við bæði hlógum og grétum allar í kór.
Þegar öll herbergi voru klár til að fara að sofa söng starfsfólkið á ganginum þangað til allir voru komnir í ró og sofnaðir.
Yndislegur endir á fjörugum og krefjandi veisludegi.
-Alla Rún, forstöðukona-