Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar kl. 09:00 í morgun og sváfu nokkuð vel þrátt fyrir mikla spennu, nýtt umhverfi og vera svona margar saman í herbergi.
Morguninn var með hefðbundnu sniði. Byrjuðum á að fá okkur smá næringu, fórum svo út í fánahyllingu, tókum vel til í herbergjunum okkar (hegðunarkeppnin formlega hafin) og fórum svo á morgunstund. Í lok morgunstundarinnar voru brennóliðin kynnt og brennókeppni flokksins formlega sett. Hópurinn fór þá rakleiðis út í íþróttahús með keppnisskapið og hvatningarópin að vopni.
Eftir hádegismat var blásið til ÖLVERSLEIKA! Stelpunum var þá skipt upp eftir brennóliðum og hvert lið einkennt með lituðu Ölvers-vesti. Þær áttu svo að fara á milli stöðva og leysa hinar ýmsu þrautir ýmist sem einstaklingar eða sem hópur. Þrautirnar voru margar hverjar virkilega furðulegar og var meðal annars keppt í furðuveru, grettum, BROSI, könglulóáannarri-boðhlaupi, matarkexáti, dans á blaði og bollubjörgun, svo fátt eitt sé nefnt.
Kaffitíminn var svo tekinn úti í góða veðrinu og í kjölfarið var heiti potturinn opnaður ásamt sturtunum. Flestar fóru í pottinn með sínu herbergi en aðrar voru sáttar með að fara í sturtu.
Á kvöldvökunni sá eitt herbergi um að skemmta hópnum og var með einn leik og eitt leikrit en hvoru tveggja uppskar mikinn hlátur. Þegar kvöldvakan var við það að klárast mættu tveir starfsmenn dansandi inn, klæddar í náttföt… jú mikið rétt það var náttfatapartý! Hópurinn dansaði nokkra dansa og söng en partýinu lauk þó skyndilega þegar starfsmennirnir settust allt í einu á gólfið og byrjuðu að stara á vegginn. Stelpurnar voru ekki lengi að átta sig á því að það væri verið að bjóða þeim í bíókvöld. Þær voru fljótar að ná í sængina sína og koma sér fyrir í salnum. Í kvöld sýndum við myndina Sidney White sem er byggð á ævintýrinu um Mjallhvít og buðum upp á popp og ávexti yfir myndinni.
Stelpurnar komust fljótt í ró eftir kósýheitin og virtust alsælar með daginn.
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur: Morgunverðarhlaðborð
Hádegismatur: Skyr og brauð
Kaffi: Pizzasnúðar, skinkuhorn og sjónvarpskaka
Kvöldmatur: Lasagne og salat
Kvöldkaffi: Popp og epli