Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar kl. 09:00 í morgun og töluðu um að þær hefðu sofið vel.

Morguninn var með hefðbundnu sniði líkt og í gær. Byrjuðum á að fá okkur smá næringu, fórum svo út í fánahyllingu, tókum til í herbergjunum okkar og fórum svo á morgunstund. Eftir morgunstundina var komið að annarri umferð í brennókeppninni.

Eftir hádegismat fóru stelpurnar í göngu niður að á og fengu að vaða aðeins í góða veðrinu. Þar sem gula vinkona okkar ákvað að láta sjá sig og vera með okkur í dag langaði okkur að njóta þess og vera mikið úti.

Eldhússtarfsfólkið ákvað að koma stelpunum á óvart þegar þær komu heim úr göngunni og voru búnar að stilla upp dýrindis afmælis-kaffihlaðborði úti í íþróttahúsi. Þar sem það var afmælisbarn í hópnum fékk hún að sjálfsögðu að byrja að velja sér og blása á afmæliskökuna. Eftir kaffitímann var stelpunum safnað saman inni í matsal, þegar þangað var komið birtust þrjár óþekkjanlegar konur sem dönsuðu og löbbuðu í takt við tónlist. Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar stelpurnar komust að því hvað þær væru að fara að gera, það var komið að Ölver‘s Top Model. Leik/keppni sem snýst um og reynir á samvinnu hópsins og sköpunargáfu, hver hópur fékk tvo ruslapoka, band, skæri, eina skeið og tvo gafla. Verkefni hópanna var að búa til klæðnað úr ruslapokunum en þær mega aðeins nota það sem þær fá afhent og það sem hægt er að finna úti í náttúrunni. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og starf dómaranna því alls ekki auðvelt í þetta skiptið. Þegar tískusýningunni (sem var að sjálfsögðu haldin úti í sólinni) var lokið og búið var að taka myndir af öllum hópum og ganga frá var stutt í kvöldmat og því fengu stelpurnar örlítinn frjálsan tíma og nýttu flestar þann tíma í að fara út á hoppudýnuna og leika í góða veðrinu.

Á kvöldvökunni sáu tvö herbergi um að skemmta hópnum og var hvort herbergi um sig með einn leik og eitt leikrit svo það var mikið hlegið í kvöld. Þegar stelpurnar voru búnar að heyra stutta kvöldsögu komu nokkrir starfsmenn dansandi inn á kvöldvökuna í náttfötum….gat það verið…. aftur náttfatapartý?? Hópurinn dansaði nokkra dansa líkt og í gærkvöldi, fékk smá útrás og náði upp góðri stemningu en svo allt í einu … stöðvaðist tónlistin og starfsfólkið bauð stelpunum út að grilla sykurpúða í kvöldsólinni.

Stelpurnar virtust allar vera sáttar við dagskrá dagsins og voru fljótar að hátta og bursta þegar þær komu aftur upp í hús.

Hér má sjá myndir frá vikunni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157715182634137/

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunmatur: Morgunverðarhlaðborð
Hádegismatur: Ávaxtasúrmjólk og brauðbar
Kaffi: Brauðbollur, kanillengjur og afmæliskaka
Kvöldmatur: Kjúklingaleggir og kartöflubátar
Kvöldkaffi:  Ávextir og sykurpúðar