Stelpurnar fengu að sofa örlítið lengur í dag og voru vaktar kl. 10:00 í morgun.

Morguninn var með nokkuð hefðbundnu sniði líkt og síðustu daga. Byrjuðum á að fá okkur smá næringu, fórum svo út í fánahyllingu, tókum til í herbergjunum okkar og fórum svo á morgunstund. Eftir morgunstundina var komið að annarri umferð í brennókeppninni.

Gula vinkona okkar er búin að skína skært í dag svo að eftir hádegismat fórum við í gönguferð, settum að sjálfsögðu allar á okkur sólarvörn og svona áður en við lögðum af stað.

Eftir að hafa fengið okkur kaffi úti í sólinni var komið að hæfileikakeppni. Stelpurnar fengu hálftíma til að æfa atriði og svo mættu dómararnir á svæðið. Hópurinn kom starfsfólkinu svo sannarlega á óvart… þvílík hæfileikabúnt! Það er greinilegt að hópurinn er stútfullur af ólíkum talentum.

Kvöldvakan var óvenjulega stutt þar sem kunnuleg tónlist fór að hljóma í húsinu þegar kvöldvakan var aðeins rétt að byrja. Starfsfólkið fór að hverfa eitt af öðru en litríkar persónur að birtast hér og þar um húsið í staðinn. Stelpurnar voru ekki lengi að átta sig á því að núna væri eitthvað virkilega ævintýralegt að fara af stað og voru fljótar að koma sér fyrir og bíða fyrirmæla. Hópurinn áttaði sig fljótlega á því að persónurnar sem voru mættar áttu það allar sameiginlegt að tengjast Harry Potter bókunum en gistiskálanum hafði allt í einu verið breytt í Hogwarts-skóla. Stelpurnar voru svo leiddar í smærri hópum inn í hvert herbergið á fætur öðru þar sem þær hittu fyrir hina ýmsu karaktera úr ævintýraheimi Potters og leystu þrautir með hverum og einum þeirra, hóparnir enduðu svo ferðina á því að fara í heita pottinn.

Eftir ævintýragang og kvöldpott voru stelpurnar svangar en í kvöld var boðið upp á frekar óvenjulegt kvöldkaffi en þegar stelpurnar voru allar búnar að ná sér niður eftir ævintýraganginn, heyra kvöldsögu og hátta var þeim boðið inn í matsal. Starfsfólkið kom þeim heldur betur á óvart þar sem búið var að stilla upp ÍS-BAR með öllu tilheyrandi í kvöldkaffinu. Ís-barinn vakti vægast sagt mikla lukku hjá hópnum.

Stelpurnar voru fljótar að komast í ró eftir að hafa slakað vel á í lok kvöldsins.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunmatur: Morgunverðarhlaðborð
Hádegismatur: Grjónagrautur og pizzabrauð
Kaffi: Kanilsnúðar og gulrótakaka
Kvöldmatur: Steiktur fiskur, hrísgrjón og salat
Kvöldkaffi:  ÍS hlaðborð