Stelpurnar voru vaktar með jólatónlist í morgun (kl. 09:30) og allir kallaðir beint inn í matsal. Matsalurinn tók á móti þeim í jólaskrúða, jólatré, jólaljós og jólastemning eins og hún gerist best. Morguninn var því með mjög óhefðbundnu sniði en við byrjuðum á því að halda létt jólaball til að setja hátíðina Jól í júlí og dönsuðum í kringum jólatréð. Eftir jólaballið gerðu stelpurnar sig klárar fyrir daginn og tóku til í herbergjunum sínum. Þegar öll herbergi voru klár og allir klárir í daginn var komið að úrslitaleiknum í brennókeppninni…. Mikil spenna og liðin voru mjööög jöfn!
Eftir hádegismatinn var komið að smá „morgunstund“ þar sem við sungum jólalög, heyrðum sögu og sungum svo aðeins fleiri jólalög. Stelpurnar sungu svo hátt og snjallt að allt í einu sást glitta í rauða húfu í fjallinu, niður hlíðina kom svo kunnulegur og klaufskur sveinn. Um sama leiti og hópurinn sá sveininn koma rúllandi stökk ráðskonan út um lúguna á eldhúsinu og rauðklæddur sveinn á eftir henni. Jú mikið rétt þetta voru þeir bræður Askasleikir og Hurðaskellir. Þeir stóðust ekki söng stelpnanna og urðu bara að kíkja við hjá okkur. Þeir sungu, dönsuðu, sýndu töfrabrögð og grínuðust í stelpunum í góða stund áður en þeir þurftu að hraða sér heim aftur. Stelpurnar virtust himinlifandi yfir heimsókninni og kvöddu þá bræður með brosi.
Eftir kaffitímann var ákveðið að hafa rólega stund. Starfsfólkið kallaði eitt herbergi í einu inn í matsal þar sem stelpurnar fengu að búa til sinn eigin brjóstsykur. Hvert herbergi valdi sinn lit og sitt bragð og svo gerði hver og ein sinn brjóstsykurspoka. Þetta vakti mikla lukku og gekk vonum framar. Eftir brjóstsykursgerðina fengu herbergin að fara í sturtu og í heita pottinn, þær sem vildu.
Eftir kvöldmat var kallað í kvöldvöku þar sem tvö herbergi sáu um að skemmta hinum og líkt og áður var hvort herbergi með eitt leikrit og einn leik. Í tilefni dagsins sungum við að sjálfsögðu jólalög í bland við ölverslögin okkar. Í lok kvöldvökunnar mættu kunnulegir jólaálfar í heimsókn sem fóru algjörlega á kostum! Eftir mikið sprell og grín voru álfarnir þreyttir og buðu stelpunum að horfa með sér á mynd… en fyrst… þurftu þær að fara niður og setja einn skó hver fyrir utan hurðina á herberginu eins og Hurðaskellir var búinn að nefna við þær fyrr í dag. Þegar allir voru búnir að hátta og koma skónum sínum fyrir áttum við rólega og huggulega stund í kvöldvökusalnum þar sem við horfðum á myndina She´s the man.
Eftir viðburðaríkan dag fóru stelpurnar kátar og brosandi að sofa.
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur: Jólagrautur og íspinni
Hádegismatur: Grænmetisbuff, cous cous, salat og heimagerð grænmetis-sósa
Kaffi: Skinkuhorn, súkkulaðibitakökur og piparkökur
Kvöldmatur: Kjötbollur og spaghetti
Kvöldkaffi: Heimagerður brjóstsykur og popp