Í gær komu hingað í Ölver 48 hressar stelpur til að dvelja hér í nokkra daga. Ölver tók á móti þeim í sínu besta formi með sól og blíðu í stíl við stelpurnar sem virtust allar í sólskinsskapi og til í ævintýrin framundan.

Við byrjuðum á að skipta þeim öllum niður í herbergin sex. Allar vinkonur fengu að sjálfsögðu að vera saman í herbergi og eftir þennan fyrsta sólarhring virðist sem herbergisfélagarnir hafi bara raðast vel saman og nýjar vináttur strax farnar að myndast. Eftir að allar höfðu komið sér fyrir, hvort sem er með eða án aðstoðar, var hádegismatur og eftir matinn fóru foringjarnir með stelpurnar í gönguferð um svæðið og sýndu þeim allt það helsta sem þarft er að vita og sögðu sögur (missannar líklega) af ævintýrum og ævintýraverum sem hér er að finna.

Eftir kaffi var svo boðið upp á heitapottinn í góða veðrinu, leiki og skotbolta niðri í laut og jafnframt valdi stór hópur að skemmta sér í fótbolta niðri á fótboltavellinum okkar.

Eftir kvöldmat var boðið upp á hefðbundna Ölvers kvöldvöku. Herbergin Hlíðarver, Fuglaver og Fjallaver höfðu undirbúið skemmtiatriði kvöldsins og það má með sanni segja að sýningin hafi verið vel heppnuð. Við fengum að sjá þrjú bráðfyndin leikrit og fara í þrjá skemmtilega leiki. Allir skemmtu sér konunglega, enda er þessi hópur meira en lítið fjörugur og hress.

Eftir að Helga Bryndís foringi hafði lesið fyrir börnin söguna Þú ert frábær eftir Max Lucado og Sergio Martinez kárnaði nú heldur betur gamanið. Ráðskonan okkar hún Guðrún Ósk kom upp í kvöldvökusal með öndina í hálsinum og sagði okkur frá því að einhver hefði komið og stolið öllu serjósinu og hlaupið með það út í skóg. Stelpurnar ætluðu alls ekki að láta það gerast að þær fengju engan morgunmat og hentu sér auðvitað út í skóg að leita að sökudólgunum og endurheimta serjósið. Þær eltu serjósslóðina alla leið niður á fótboltavöll og þá kom í ljós að það voru auðvitað engir aðrir en foringjarnir sem biðu þar merktar herbergjunum. Þannig afhjúpaðist þá hver yrði bænakona í hvaða herbergi og sæi þannig um að aðstoða við háttatímann, lesa og spjalla og biðja með þeim kvöldbænirnar fyrir svefninn.

Nóttinn gekk vel og vandræðalaust og þær vöknuðu allar hressar í morgun og til í þennan sólríka og fallega dag.

Við sem hér erum og störfum með börnunum í þessum flokki erum þakklátar fyrir kraftinn og gleðina í þessum stóra hópi. Það er mikill leikur í þeim og verður gaman að kynnast þeim enn betur. Á dagskrá í dag er brennókeppni, ganga og íþróttaleikar en þið fáið frekari fréttir af því á morgun.