Gærdagurinn var alveg frábær! Eftir að stelpurnar höfðu allar tekið til í herbergjunum sínum og gert hreint og fínt fyrir stjörnugjöf var haldin morgunstund. Á morgunstundinni lærðu þær um það hvernig allir eiga skilið sömu virðingu og að framkoma okkar eigi að einkennast af kærleika sama hver á í hlut. Þetta kemur vel fram í dæmisögu Jesú um miskunnsama samverjann sem er sagan sem stelpurnar fengu að heyra. Þær sáu svo skemmtilegt myndband til að skerpa aðeins á boðskapnum.

Eftir biblíulesturinn hófst brennókeppni flokksins. Að þessu sinni eru það liðin Epli, Perur, Appelsínur, Bananar og Melónur sem takast á. Fjórir leikir voru leiknir í gærmorgun og stefnir í spennandi keppni.
Eftir hádegismat var haldið í göngu. Gengið var með fram fjallinu okkar góða að fallegri laut. Þar fóru nokkrir ofurhugar upp að „steini“ á meðan aðrar nutu sólarinnar og blíðviðrisins og gæddu sér á krækiberjum. Kannski heldur snemma fyrir sumra smekk en þeim virtist nú engu að síður bara finnast berin ágæt.

Í svona stuttum flokki þarf að halda vel á spöðunum til að koma að sem flestum dagskrárliðum svo að enginn verði fyrir vonbrigðum. Hæfileikakeppni flokksins var því auglýst í hádegismatnum og stelpurnar fengu tíma fyrir og eftir göngu til að undirbúa sig. Svo var bara sannkölluð kaffihúsastemmning í kaffitímanum. Stelpurnar gæddu sér á dýrindis skúffuköku og nýbökuðum og ilmandi bollum og nutu á meðan hæfileika hvorrar annarrar. Það voru mörg frábær atriði flutt og eru foringjarnir ekki öfundsverðir að þurfa að velja sigurvegara.

Í Ölveri eru hárgreiðslukeppni venjulega meðal dagskrárliða. Það stóð ekki til að hafa hárgreiðslukeppni í þessum stutta flokki á kostnað annarra dagskrárliða. Hins vegar voru margar spenntar fyrir því og höfðu verið að undirbúa þvílíkar fagmannsgreiðslur fyrir flokkinn. Við ákváðum þess vegna að brydda upp á því að hafa „flæðandi hárgreiðslukeppni“. Hún hófst í hádeginu í gær og lýkur í kaffitímanum í dag. Stelpurnar geta þá nýtt lausan tíma til að greiða hvorri annarri og sýna afraksturinn til myndatöku. Þetta hefur gefist rosalega vel og gaman að sjá þær dunda sér við þetta á lausum stundum.

Eftir að hæfileika-kaffitímanum lauk í gærkvöldi voru haldnir Ölversleikar þar sem herbergin kepptu við hvort annað í hinum ýmsu hópleikjum niðri á fótboltavelli. Að leikunum loknum var pottur í boði fyrir þær sem vildu og 3 herbergi fengu aðstoð foringja við að undirbúa skemmtiatriði á kvöldvöku. Kvöldið leið svo með hefðbundnum hætti… NEMA að að lokinni skemmtilegri kvöldvöku og eftir ávaxtastund og tannburstun var blásið í óvænt NÁTTFATAPARTÝ! Það var sko stuð! Stoppdans og ásadans og tik-tok dansar, foringjaleikrit og svo ís og sögustund í lokinn. Þær sofnuðu seint… en það má stundum þegar maður er í sumarbúðum.

Í dag er veisludagur og stendur mikið til. Biblíulestri er lokið og brennókeppnin í fullum gangi og foringjarnir á fullu að undirbúa dagskrá dagsins. Ég mun flytja ykkur fréttir af því öllu saman á morgun.

Morgunmatur: Morgunkorn m mjólk og hafragrautur.

Hádegismatur: Kjötbollur og spagettí og ferskt salat.

Kaffi: Súkkulaðikaka og nýbakaðar bollur m smjöri og osti.

Kvöldmatur: Skólastjórasúpa m snakki, osti og sýrðum rjóma og afgangur af kjötbollum og pasta fyrir þær sem vildu.