Í gær mættu 46 yndislegar stelpur í Ölver. Þeim var skipt niður í herbergi við komuna og fengu allar vinkonur að vera saman í herbergi eins og venjan er. Eftir að allar höfðu komið sér fyrir var pasta í hádegismat. Að hádegismat loknum fóru stúlkurnar út í gönguferð og fengu að kynnast svæðinu, ásamt því að fara í nokkra leiki. Eftir kaffitímann var brennó-kennsla og að því loknu fengu þær skilaboð um að hvert herbergi þyrfti að leita að vísbendingum til að finna sína bænakonu.

Í kvöldmatinn var kjúklingaréttur sem féll vel í kramið. Því næst var kvöldvaka og kvöldhressing. Svo fóru allar stúlkurnar að bursta tennurnar og hátta sig, en vissu þó ekki á þeim tíma að þeirra beið náttfatapartý. Náttfatapartýið stóð svo langt fram eftir kvöldi þar sem það var mikið sungið og mikið dansað.

Það gekk vel hjá öllum að fara að sofa og sváfu stúlkurnar vel í nótt og þar til þær voru vaktar kl.9 í morgun.

Í dag bíða okkar svo alls kyns skemmtileg ævintýri.