Í gær var nóg að gera hjá okkur í Ölveri. Stelpurnar sváfu vel og lengi og voru vaktar kl. 8:30. Þær fengu morgunmat og fóru svo á morgunstund þar sem var sungið og saga sögð um hvernig fólkið í kringum okkur getur hjálpað okkur í lífinu. Eftir morgunstundina var boðið upp á kókoskúlugerð og föndur. Í hádegismat fengum við dýrindis grænmetisbuff og lögðum svo af stað í gönguferð niður að læk þar sem boðið var upp á að busla og veðrið lék við okkur á meðan. Í kaffitímanum fengu þær svo að borða kókoskúlurnar sem þær höfðu búið til um morguninn og var svo haldin hæfileikasýning þar sem margir flottir hæfileikar litu dagsins ljós, meðal annars fimleikasýning, brandarar og söngur. Eftir hæfileikasýninguna var frjáls tími þar sem meðal annars var boðið upp á að fara í pottana sem flestir gerðu. Í kvöldmat var boðið upp á súpu og snakk. Kvöldvaka var svo á sínum stað en breyttist svo yfir í náttfatapartý sem endaði á bíókvöldi með popp og ávöxtum. Við horfðum á Aladdin og fóru allir sáttir að sofa eftir viðburðaríkan dag 🙂

 

Kveðja frá forstöðukonum,

Ólöf Birna og Guðlaug María