Fyrsti dagur flokksins gekk eins og í sögu. Mjög skemmtilegri sögu meira að segja. Algjört partý í rútunni og mikil spenna. Komum uppí Ölver um 12 leytið. Fórum þá yfir nokkrar reglur og röðuðum þeim svo í herbergi. Engar áhyggjur kæru foreldrar, allar vinkonur eru saman í herbergi (;
Þegar þær höfðu komið sér fyrir í herbergjunum var hádegismatur – ávaxtasúrmjólk og pizzabrauð, sem fékk góðar undirtektir. Eftir mat gengum við allar saman hring um svæðið og fórum í nafnaleiki. Í kaffinu var svo jógúrtkaka og ávextir.
Þó svo að rúmlega helmingur stelpnanna í flokknum hafi komið áður, fórum við því næst út í íþróttahús og kenndum þeim brennó – þjóðaríþrótt Ölvers, ef Ölver væri þjóð. Við spiluðum nokkra leiki og enduðum svo á foringjabrennó – allir á móti foringjum. Mikið sport.
Í kvöldmat var fiskur í raspi, kartöflur og með’ví. “Allir sem borða ekki fisk, borða samt fiskinn í Ölveri, hann er svo góður.”
Kvöldvaka næst á dagskrá. Sungin skemmtileg lög, beðið bæn, hlustað á hugleiðingu um stofnun Ölvers og horft á foringja leikrit. Stelpurnar fá lika að vera með leikrit og/eða leik einu sinni yfir vikuna. Hamraver reið á vaðið og var með leikrit og leik á kvöldvökunni sem heppnaðist svona líka vel.
Beint eftir kvöldvöku fóru stelpurnar útí skóg að leita að bænakonunum sínum. Hvert 6-9 manna herbergi fær sína bænakonu, en bænakona er foringi sem sér um herbergishópinn sinn alla vikuna. Hún er til staðar ef eitthvað kemur uppá, kemur þeim í ró á kvöldin og passar að öllum líði vel. Mikil gleði, mikið gaman. Þetta kvöld voru bænakonurnar extra lengi inná bænaherbergjunum, til að kynnast stelpunum almennilega. En þær lesa margar sögur, fara í stutta leiki eða syngja fyrir þær.
Nóttin gekk ágætlega, nokkur tár á hvarmi en ekkert stórvægilegt. Ekkert sem reynda, flotta starfsfólkið hér ræður ekki við. Dagur 2 gengur líka vel, so far. Morgunmatur – tiltekt í herbergjum – biblíulestur – brennó og svo hádegismatur. Klassískur morgun í Ölveri.
Klikkað plan i bígerð, þessi dagur verður ekki minni skemmtilegur en sá á undan.

Ég set inn fréttir um hádegisbilið alla daga en það koma inn myndir seint á kvöldin. Endilega fylgjast með því líka inná hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719464237880

Eins og ég sagði niðrá Holtavegi í gær; ef þið heyrið ekkert frá mér, gengur allt vel. En ef þið viljið bjalla í mig eða hafið einhverjar spurningar, er símatími alla daga milli 18 og 19.

Þangað til á morgun
Gríma Katrín, forstöðukona.

´