Jæja, restin af degir 2 var ekki síðri en byrjunin. Eftir morgunrútínuna (morgunmatur – tiltekt í herbergjum – biblíulestur – brennó og hádegismat) voru haldnir Ölversleikar. Þeir eru haldnir í öllum ævintýraflokkunum og eru mjög vinsælir. Margar reyndar Ölverstelpur biðu spenntar eftir þessum viðburði. Eins og svo mörgu reyndar.
Í Ölversleikunum voru herbergin saman í liði og fóru á 6 stöðvar þar sem biðu þeirra 6 skemmtilegar og öðruvísi þrautir. Þær voru m.a. stígvélaspark, rúsínuspýtt, sippkeppni, lautarhlaup, broskeppni, jötunfata og ljóðakeppni. Allt mjög framandi og fyndið.
Í kaffinu fengum við hinar víðfrægu Ölvers brauðbollur og súkkilaðibitasmákökur. Eftir kaffi héldum við Ölvers next top model. Flestar mjög spenntar fyrir því. Herbergin voru saman í liði og fengu einn plastpoka, garn og skæri til að vinna með. Svo mátti nota allt sem maður gat fundið úti í náttúrunni. Við sáum mjög skemmtilegar og frumlegar hugmyndir og módelin hvert öðru flottara.
Potturinn var í boði fyrir þær sem vildu eftir sýninguna, sem þær þáðu flestar. Sól og tónlist og bara almenn gleði. Í kvöldmatinn var tómatsúpa og quesadillas. Svo var kvöldvaka. Tvö herbergi voru með leikrit, við lærðum fleiri lög og heyrðum hugleiðingu.
Svo hringdi síminn. Á facetime og varpað beint uppá skjávarpa. Það var ég að hneykslast á því að þær væru bara inni í þessu góða veðri og að ég væri bara ein og einmanna útá túni að grilla sykurpúða. Þær voru ekki lengi að hendast út til mín og fengu þær sem vildu að grilla sykurpúða. Brekkusöngur og stemning. Mjög vel heppnað kvöld.
Hátta – pissa – bursta og koma sér inná herbergi, þar sem bænakonan spjallar, les, leikur og biður. Ekki lengi að sofna, enda langur og skemmtilegur dagur.
Í dag skín sólin á okkur inná milli, smá vindur en þurt. Hádegismatur í gangi eins og stendur og stelpurnar spenntar að fá að vita hvað við gerum næst.
Ég lofa engu en ég held að þessi dagur verði trylltur (: stefnir í það amk.

Yours truly
Gríma Katrín

P.S. Ég fattaði ekki einu sinni að nefna það í frétt gærdagsins. Lúsmýið er ennþá í fullri vinnu einhvernstaðar annarsstaðar, og ekki komið í sumarfrí. Við erum þakklátar fyrir það og vonum bara að stytting vinnuvikunnar lengi ekki sumarfríið þeirra. Þær hafa yfirleitt verið að mæta hingað á þessum tíma, en ef það heldur áfram að blása á okkur, gætu stelpurnar ykkar mögulega komið algjörlega óbitnar til baka.