Dagur 1.

Fjörtíu og sjö flottar stelpur mættu hressar og glaðar í Ölver. Starfsfólkið byrjaði á því að kynna sig og bjóða þær velkomnar. Við skiptum þeim svo niður í herbergi og þær komu sér fyrir. Að sjálfsögðu fengu vinkonur að vera saman í herbergi. Við fengum skyr og pizzubrauð í hádegismat og stelpurnar borðuðu vel. Eftir matinn fórum við öll saman út í skoðunarferð um svæðið. Við stoppuðum í íþróttahúsinu, kenndum stelpunum brennó og fórum svo í nafnaleiki á fótboltavellinum. Mikið hlegið og gaman hjá þeim. Í kaffinu fengum við kökur og bollur sem slóu í gegn. Við erum með alveg æðislegan bakara.

Eftir kaffitímann fórum við svo í listhópa. Þá fengu stelpurnar að velja hvort þær færu í leiklistarhóp, danshóp eða sönghóp. Hver hópur æfði upp atriði sem stelðurnar sýndu svo á kvöldvökunni. Rosalega erum við með hæfileikaríkar stelpur í flokknum, þær sungu svo vel, dönsuðu fallegan dans og léku skemmtileg leikrit. Í kvöldmatinn fengum við fisk í raspi með kartöflum og kokteilsósu. Allar borðuðu fiskinn enda alveg rosalega góður. Kvöldvakan gekk æðislega, mikið sungið og atriðin sem þær höfðu æft fyrr um daginn vöktu mikla lukku. Stelpurnar voru mjög spenntar að sýna atriðin sín og fá viðbrögð frá hópnum. Undir lokin fengu stelpurnar að heyra hugleiðingu og svo fóru þær í bænakonuleit. Þá höfðu foringjarnir falið sig úti og átti hvert herbergi að finna sinn foringja sem verður bænakonan þeirra í vikunni. Bænakonan kemur inn til þeirra á hverju kvöldi, spjallar við þær um daginn, segir þeim sögu, fer með bæn og kemur þeim í ró. Þetta eru góðar stundir sem herbergið fær saman fyrir nóttina. Allar stelpur voru svo sofnaðar um miðnætti. 

Dagur 2

Dagurinn byrjar mjög vel. Stelpurnar mættu hressar og glaðar í morgunmatinn og spenntar fyrir deginum. Þetta er líklega eini sólardagurinn í vikunni svo við ætlum að vera mikið úti í dag, fara í göngutúr, vatnsstríð, heita pottinn, blása upp hoppukastala, mála steina og margt fleira. Ég set inn fréttir og myndir á hverjum degi um hádegisbilið. Það er hægt að hringja í Ölver og spjalla við mig milli 18-19 á kvöldin. Kær kveðja Íris Rós forstöðukona.