Dagur 3

Mikið var þetta fjörugur og skemmtilegur dagur. Fallegt veður og morgunstundin góð. Í hádegismat fengum við tómatsúpu með snakki og osti og síðan var hæfileikakeppni eftir það. Dómari hæfileikakeppninnar var enginn annar en sjálfur Benedikt búálfur. Árni Beinteinn, leikarinn sem leikur Benedikt búálf í söngleiknum sem sýndur er á Akureyri, kom og tók lagið fyrir stelpurnar. Mörg flott atriði voru á hæfileikakeppninni; dans, fimleikar, söngur, píanóspil, brandarar og allskonar skemmtilegt. Rosalega erum við með flottar og hæfileikaríkar stelpur hérna í sumarbúðunum! Í kaffinu var rosalega góð afmæliskaka enda tvær stelpur sem áttu afmæli, við sungum og röppuðum afmælissönginn fyrir þær. Eftir kaffi var boðið uppá allskonar skemmtilega dagskrá; brjóstsykursgerð, upptökur á lagi og tónlistarmyndbandi, teiknikeppni, dans, leiki og margt fleira. Við sömdum texta við lag og tókum upp söng sem við ætlum svo að gera tónlistarmyndband við. Í kvöldmatinn voru fiskibollur með sósu og hrísgrjónum. Við tókum dans í matnum og þar var heilmikil stemning. Á kvöldvökunni komu leynigestir og tóku leikrit fyrir stelpurnar. Það voru systkini mín, séra Pétur og Marta, sem hafa unnið mikið í sumarbúðum útum allt land. Eftir vel heppnaða kvöldvöku fórum við í ævintýralistaleik. Þá gengu stelpurnar á milli stöðva þar sem þær áttu að leysa þrautir eða gera eitthvað annað skemmtilegt. Foringjarnir voru í búningum og léku einhverjar skemmtilegar persónur. Þetta var mjög gaman! Eftir ævintýraleikinn buðum við uppá bíó fyrir þær sem vildu. Þá fóru stelpurnar í náttföt, tóku sængina upp í kvöldvökusal og horfðu á mynd. Þær fengu popp, gulrætur og perur. Þessi dagur var rosalega skemmtilegur og allar stelpurnar í skýjunum. Í dag er einnig mikil dagskrá! Ég tók þverflautu með sem ég sýndi þeim og spilaði fyrir þær. Á eftir verður top model keppni, þá gera þær hárgreiðslu og hanna föt og við endum það svo á tískusýningu. Ég hlakka til að segja ykkur betur frá því á morgun.

Endilega kíkið á myndirnar sem koma alltaf inn daglega 🙂

Kær kveðja Íris Rós