Dagur 1.
46 glaðar og skemmtilegar stelpur héldu af stað í Ölver á mánudag. Þegar þangað var komið beið þeirra ljúffengt skyr og pizzabrauð. Eftir að starfsmenn höfðu kynnt sig, og stelpurnar komið sér fyrir,  var farið yfir allar nauðsynlegustu upplýsingarnar og að því loknu fóru stelpurnar í göngu um svæðið. I kaffinu var borið fram nýbakað bananabrauð og jógúrt kaka. Þetta rann ljúflega niður. Stelpurnar voru alsælar og afar kurteisar, veðrið lék við okkur og því var ákveðið að fara niður að læk. Þær sem voru með og vildu fara í sundbol, skelltu sér í að vaða litla lækinn sem er hér rétt hjá Ölvershúsinu okkar. Sumar völdu að leika sér við lækinn. Allir skemmtu sér mjög vel, heitt var í veðri og áður en við héldum aftur heim á leið völdu stelpurnar með sér stein sem þær ætluðu síðar að mála á. Í kvöldmat var ljúffengur fiskur með kartöflubátum, allir borðuðu mjög vel. Eftir þetta var komið að kvöldvöku. Þrjú herbergi sýndu leikrit sem þau höfðu æft og í lok hennar sagði ég frá staðnum og hvernig Kristrún upphafskona Ölvers byggði upp staðinn. Stelpurnar hlustuðu með athygli á söguna af þessari merku konu. Í kvöldkaffi voru eplabitar og vatn að drekka. Ró var komin á um miðnætti. Meiri fréttir í næsta pósti. Kær kveðja Rósa, forstöðukona í 4. flokki.