Þriðjudagur, annar dagurinn okkar hér í Ölveri. Morgunmatur var kl. 9 og fram að honum voru stelpurnar duglegar að leika inni á herbergjunum sínum. Ég kenndi þeim nýjan morgunsöng og þær eru allar mjög duglegar að læra ný lög og nýja texta, gaman að því. Eftir morgunmat var fáninn okkar reistur við hún og fánasöngurinn sunginn. Að því loknu var samverustund í salnum. Stelpurnar lærðu nýjan texta, Ölverstexta, við frægt lag „Cup song“ og þeim var kenndur bolladansinn við, mjög skemmtilegt og stelpurnar svo duglegar við að læra hann, mikil gleði sem fylgdi þessu. Eftir samverustund var haldið út í íþróttahús og skipt í brennólið. Liðin fengu nöfn er tengdust Bangsímon og vinum hans. Síðan þrír brennóleikir spilaðir. Í hádegismat var vinsæll matur, Spaghetti bolonese og hvítlauksbrauð. Að hádegismat loknum voru smiðjur. Smiðjurnar voru settar upp sem hringekja, og allir fengu að prófa allt. Málað á steina, kennt á ukulele, sungið á kóræfingu, gerð vinabönd, farið í skotbolta og teiknaðar myndir. Þessar smiðjur vöktu mikla lukku. Í kaffinu fengu stelpurnar djús, brauðbollur og súkkulaðibitakökur, oft nefndar, subwaykökur. Eftir kaffi var hæfileikasýning. Þar stigu stelpurnar á stokk og ýmist sungu, dönsuðu, léku leikrit eða sýndu okkur teikningarnar sínar. Mjög skemmtileg stund. Eftir sýninguna var frjáls leikur og 3 herbergi æfðu atriði fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmat fengum við grænmetisbuff, kúskús og grænmetissósu. Stelpurnar borðuðu vel af því. Síðan var blásið til kvöldvöku, sungið, beðin kvöldbæn og saga lesin. Eftir það fóru allir niður í matsal og fengu banana og vatn í kvöldhressingu, og eftir það að hátta sig og bursta. Við blésum að því loknu til smá náttfatapartýs, sem kom þeim sannarlega á óvart, og þar dönsuðu stelpurnar alls konar hópdansa og foringjarnir léku nokkur leikrit sem stelpurnar fengu að taka þátt í að hluta. Allir fóru sáttir að sofa eftir viðburðarríkan dag. Kær kveðja, Rósa forstöðukona.