Í dag er komið að brottfarardegi. Við hófum daginn á morgunmat, söng, morgunbæn og leikfimi við fína lagið hans Daða og Gagnamagnsins, 10 years. Að því loknu var haldið í herbergin aftur og stelpurnar pökkuðu niður dótinu sínu með hjálp foringjanna og aðstoðarforingjanna. Síðan var haldið í salinn uppi þar sem fram fór samverustund sem ég leiddi. Við sungum mikið og töluðum um dvölina okkar hér í Ölveri. Síðan var það brennóleikur sem er í gangi núna og fær vinningsliðið að spila leik við foringjana í lokin. Sá leikur er einmitt í gangi núna þegar ég rita pistil þennan. Við tekur síðan pylsupartý í hádegismat. Eftir matinn verður aftur samverustund þar sem stelpurnar fá viðurkenningu fyrir dvöl sína í flokknum og fleira skemmtilegt. Sunginn verður Ölverssöngurinn 2021, sem er að þessu sinni nýr texti við Daðalagið það nýjasta og við starfsfólkið kveðjum stelpurnar með góðri stund saman áður en heim er haldið.
Rútan kemur hingað í Ölver kl.15.00 og við áætlum að vera á Holtavegi um kl. 16.00. Ef stelpurnar eru sóttar er gott að koma milli 14 og 15 hingað upp í Ölver, en börnin sem eiga pláss í rútuna fara í hana eins og planið var.
Við þökkum kærlega fyrir yndislega samveru með stelpunum ykkar, þær stóðu sig svo sannarlega vel og geta kallað sig með sanni Ölversstelpur. Við vonum sannarlega að þeim hafi liðið vel hjá okkur og vonandi sjáumst við aftur á næsta ári. Ef eitthvað skyldi gleymast hér í Ölveri, þá bendum við ykkur á að hafa samband við Holtavegi, öllum óskilamunum verður komið þangað.
Bestu kveðjur áfram inn í sumarið,
Rósa forstöðukona,
Fanney Rún ráðskona,
Eva bakari,
Foringjarnir Sigríður Sól, Salóme, Sólveig, Erla og Kristrún.
Og aðstoðarforingjarnir, Sara, Herdís, Ragna, Eyrún, Iðunn Helga og Gréta Petrína.