Þá er loksins komið að því…Ævintýraflokkur II er hafinn! Hingað eru mættar 47 FRÁBÆRAR stelpur sem eru sko til í fjörið sem ævintýraflokkur hefur upp á að bjóða.

Um leið og við mættum á staðinn í gær röðuðum við öllum stelpunum í herbergi og gættum að sjálfsögðu að því að allar vinkonur fengju að vera saman. Þá var bjallað í hádegismat og eftir hann hófst fjársjóðsleitin mikla. Hvert herbergi fékk eina vísbendingu sem þær þurftu að leysa og leiða hópinn að næsta stað. Á hverjum stað fengu þær að heyra sögu eða fara í hópleiki. Síðasta vísendingin leiddi þær út í íþróttahús þar sem við kynntum þær fyrir þjóðaríþrótt Ölvers…Brennó! Þær kepptu allar einn leik og þá var kominn kaffitími. Eftir kaffi höfðu aðstoðarforingjarnir okkar rænt leiðbeiningum að næsta verkefni svo stelpurnar þurftu að fara út í skóg til að finna þær. Í ljós kom að aðstoðarforingjarnir okkar eru MJÖG góðir í að fela sig svo það tók stelpurnar dágóðan tíma að finna þær. Þegar það loksins tókst fengu stelpurnar miða og þurftu að finna bænakonuna sína sem var einnig í felum úti í skógi. Öll herbergin hafa sína eigin bænakonu en það er starfsmaður sem svæfir þær á kvöldin og fylgist sérstaklega vel með stelpunum í sínu herbergi.

Eftir leikin var frjáls tími sem stelpurnar nýttu flestar úti. Veðrið hér var ólýsanlegt og má með sanni segja að sumarið hafi mætt í Ölver í gær. Við tímdum varla að fara inn í kvöldmat en gerðum það þó að lokum.

Eftir kvöldmatinn var fyrsta kvöldvakan. Þar sungum við fullt af skemmtilegum lögum, fengum að sjá frábær leikrit og fara í leiki í boði Fjallavers og Skógarvers, en á hverju kvöldi taka tvö herbergi að sér að skemmta hinum stelpunum. Stelpurnar fengu svo að heyra sögu um Kristrúnu Ólafsdóttur sem hóf sumarbúðastarfið hér í Ölveri. Eftir kvöldvökuna var boðið upp á ávexti og svo fóru allar að hátta og bursta tennur. Bænakonurnar mættu inn á herbergin og lásu, fóru í leiki og báðu bænir með stelpuum áður en þær fóru svo að sofa. Allar sofnuðu þær að lokum þó það hafi tekið aðeins lengri tíma fyrir sumar þeirra. En við starfsfólkið erum mjög stoltar af þeim því við vitum að það er ekki alltaf auðvelt að sofna á nýjum stað, fjarri fjölskyldunni. Staðurinn er sko fullur af flottum Ölversstelpum, því allar stelpur sem dvelja í flokk hér í Ölveri verða Ölversstelpur að flokknum loknum.

Þar sem við erum staddar í Ævintýraflokki þá vöktum við stelpurnar klukkan 9:15 í morgun og dagurinn byrjaði á náttfatapartýi!! Stelpurnar voru frekar ringlaðar á þessu öllu saman enda vanar því að náttfatapartýin séu haldin á kvöldin. Það tók þær nokkur lög til að vakna og dansa með en þetta var góð byrjum á deginum. Eftir hefðbundin morgunverk, sem eru morgunmatur, fánahylling og tiltekt í herbergjum fóru allar stelpur á biblíulestur þar sem við lærðum um hjálpsemi og heyrðum söguna af miskunnsama Samverjanum.

Búið er að skipta öllum stelpunum niður í brennólið sem heita öll eftir flottum kvenkyns-leiðtogum sem hafa á einn eða annan hátt breytt heimunum. Í þessum skrifuðu orðum eru þær að keppa sína fyrstu leiki í brennó og svo fara þær beint í hádegismat.

Dagurinn byrjar mjög vel og veðrið leikur við okkur. Það er fullt af dagskrá framundan enda þurfum við að nýta þessa örfáu daga sem við höfum saman mjög vel 🙂

Starfsfólk í þessum ævintýraflokki er samansett af frábærum og vel þjálfuðum einstaklingum sem finnst ekkert skemmtilegra en að leika við börn og hafa gaman:

Forstöðukona: Hjördís Rós

Ráðskona: Guðrún Ósk

Foringjar/bakari/ræstir: Andrea Rut, Kristín Helga, Kristrún, Kristrún Lilja, Salóme, Sigríður Sól og Viktoría.

Aðstoðarforingjar: Hekla Sif, Hrafnhildur, Marín Rut og Sólveig

 

Eins og þið sáuð kannski á færslunni þá erum við alltaf að borða en hér má sjá hvað hefur verið í matinn hingað til:

Hádegismatur: Skyr og pizzabrauð

Kaffitími: Súkkulaðibitakaka og jógúrtkaka

Kvöldmatur: Ölvers-fiskur og kartöflur, sósa og grænmeti

Kvöldkaffi: Epli og perur

Morgunmatur: Hafragrautur, Cheerios, Kornflakes og súrmjólk

 

Við sendum frábærar kveðjur héðan úr Ölveri og minnum á að hægt er að skoða myndir úr flokknum hér. 

Nýjar myndir koma inn á hverjum degi.

 

Bestu kveðjur,
Hjördís Rós