Þá höldum við áfram þar sem frá var horfið 🙂
Eftir hádegismatinn í gær ákváðum við að nýta góða veðrið og skellltum okkur í gönguferð að læknum sem rennur hér rétt hjá Ölveri. Þar gátum við vaðið út í lækinn, sumar dýfðu tásunum rétt út í á meðan aðrar fóru á bólakaf. Eftir skemmtilega dvöl við lækinn gengum við til baka í Ölver og þar biðu okkar nýbakaðar bollur og kaka sem við borðuðum úti í góða veðrinu.
Eftir kaffi þurftu stelpurnar að leysa sköpunarkraft sinn úr læðingi því nú var komið að hinni árlegu keppni…Ölver’s next top model! Þvílíkt hugmyndaflug hjá stelpunum. Þær hönnuðu hvern búninginn á fætur öðrum og sýndu afraksturinn með tískusýningu í lautinni. Eftir stórkostlega tískusýningu var frjáls tími þar sem stelpurnar gátu leikið sér og farið í heita pottinn.
Eftir kvöldmatinn sáu stelpurnar í Lindaveri um skemmtun á kvöldvöku. Þar var mikið hlegið og sungið. Þegar kvöldvakan var alveg að klárast komu tveir foringjar inn með leikþátt sem endaði þannig að allar stelpurnar hlupu út og við grilluðum sykurpúða, sungum og nutum þess að vera úti á þessu bjarta sumarkvöldi. En kvöldið var þó ekki búið eftir það því einhvern veginn þurftum við að brenna þessum sykri sem við höfðum innbyrgt svo þá var tekið á það ráð að halda alvöru náttfatapartý! (þetta um morguninn var bara smá upphitun :)) Stelpurnar dönsuðu og skemmtu sér vel en eftir mikið fjör fórum við svo loksins að sofa. Það tók smá tíma að ná öllum í ró en allar sofnuðu þær þó á endanum.
Í morgun vöktum við stelpurnar hálftíma seinna en venjulega því við fórum svolítið seint að sofa í gær. En dagurinn byrjar vel því í dag er KARNIVAL dagur!! Eftir hefðbundin morgunverk fórum við á biblíulestur þar sem við ræddum saman um mistök og fyrirgefningu. Stelpurnar fóru svo beint út í brennó og eru nú að borða hádegismat.
Dagskráin fyrir daginn í dag er heldur betur skemmtileg og það má með sanni segja að við höfum reynt að nýta hverja einustu mínútu eins vel og hægt er 🙂 En ég segi ykkur betur frá þessu öllu saman á morgun.
Maturinn:
Hádegismatur: Grænmetisbuff, kúskús, sósa og salat
Kaffitími: Nýbakaðar, dásamlegar bollur og súkkulaðikaka
Kvöldmatur: Hrísgrjónagrautur og brauð
Kvöldkaffi: Epli og bananar (og grillaðir sykurpúðar :))
Morgunamatur: Hafragrautur, Cheerios, Kornflakes og súrmjólk
Við sendum okkar bestu kveðjur héðan úr veðurblíðunni í Ölveri
Hjördís Rós
p.s. Lúsmýið hefur aðeins látið vita af sér og hafa flugurnar nartað í nokkrar stelpur. Þær bera sig samt allar vel…sko stelpurnar 🙂