Ævintýrin halda áfram að gerast hér í Ölveri. Eftir hádegismatinn hófust Karnival-leikar Ölvers! Þar var boðið upp á alls konar þrautir sem stelpurnar tóku þátt í eins og til dæmis bollakökuskreytingar, ,,hvað er í kassanum?“, grettu- og broskeppni og borðtenniskúlukast. Eftir allar þrautirnar var boðið upp á hressingu þar sem stelpurnar fengu m.a. að borða bollakökurnar sem þær skreyttu.
Þegar allir magar voru orðnir saddir hófst hæfileikakeppni flokksins. Hér eru ótrúlega flottar og hæfileikaríkar stúlkur sem sýndu listir sínar með söng, dansi, blöðrudýri, leikriti og fleiru. Þegar hæfileikasýningunni lauk fengu allar stelpurnar Candyfloss…það er nú einu sinni Karnival-dagur 🙂 Við höfðum engan tíma til að fara í pottinn þennan daginn en stelpurnar fengu smá frjálsan tíma fram að kvöldmat. Eftir matinn sáu stelpurnar í Hlíðarveri um skemmtunina á kvöldvökunni með leikriti og leik.
Það er búið að vera svo mikið um að vera hjá 0kkur síðustu daga að stelpurnar voru orðnar frekar þreyttar. Því ákváðum við að hafa kósý-bíó-kvöld þar sem stelpurnar horfðu á Lísu í Undralandi og fengu popp. Þegar myndin kláraðist læddust þreyttir kroppar upp í rúm og bænakonunar lásu fyrir stelpurnar og svæfðu þær.
Nóttin gekk vel og erum við mjög stoltar af stelpunum sem eru nú búnar að sofa þrjár nætur hér í Ölveri og bara tvær eftir. En eftir hefðbundin morgunverk (morgunmatur, fánahylling og tiltekt í herbergjum) fóru þær á biblíulestur þar sem við fengum að heyra söguna um dýrmætu perluna og spjölluðum saman um það á hverju væri gott að byggja líf sitt. Eftir biblíulesturinn hlupu stelpurnar út í íþróttahús í brennó því hér er hörkuspennandi brennókeppni í fullum gangi. Þær eru nú að tínast inn í hús þar sem bíður þeirra heitur hádegismatur. Næst á dagskrá er skemmtilegur leikur sem margar þeirra eru búnar að bíða spenntar eftir…nokkrar hafa meira að segja heimtað endurgreiðslu ef þessi leikur verður ekki í vikunni 🙂 🙂 🙂 Svo eins og þið sjáið, kæru foreldrar, þá er mikið líf og fjör hér í Ölveri. Ég segi ykkur betur frá leiknum okkar á morgun 🙂
Við setjum nýjar myndir inn á hverjum degi sem finna má hér en stundum er bara svo mikið fjör að við gleymum að taka myndir.
Matur dagsins:
Hádegismatur: Hakk og spagettí og grænmeti
Kaffitími: Vel skreyttar bollakökur og bananabrauð
Kvöldmatur: Ávaxtasúrmjólk og brauð
Kvöldkaffi: Bananar og appelsínur (og popp)
Morgunmatur: Hafragrautur, Cheerios, Kornflakes og súrmjólk
Kærleikskveðja héðan úr Ölveri!
Hjördís Rós