Þá er veisludagur runninn upp en áður en ég segi ykkur frá honum þá þarf ég að klára að segja ykkur frá gærdeginum. Ég skildi við ykkur þegar við vorum að fara í spennandi leik og sá leikur heitir Ævintýragangur. Herbergjum stelpnanna hafði verið breytt í allskonar ævintýraheima sem þær gengu á milli og heimsóttu hvert ævintýrið á fætur öðru. Þær fengu að hitta Gullbrá og smakka hjá henni grauta, norn sem gaf þeim töfraseyði, sjóræningja sem sýndi þeim alls konar minjagripi og franskt módel sem vildi fá málverk af sér. Eftir ævintýralega göngu enduðu þær í töfraheimi og horfðu á bíómynd.

Þær fengu sér smá hressingu og eftir hana var frjáls tími þar sem boðið var meðal annars upp á hoppukastala, heitan pott, vinabandagerð og skotbolta í lautinni. Þá var komið að kvöldmat en eftir hann fóru allir á kvöldvöku og sáu stelpurnar í Hamraveri og Fuglaveri um leikrit og leiki á kvöldvöku. Þegar kvöldvakan var alveg að klárast hljóp Lísa í Undralandi inn í salinn ringluð og hrædd enda kom Hjartadrottningin askvaðandi á eftir henni. Allar stelpurnar þurftu að hjálpa Lísu að komast úr Undralandi og þurftu að finna kanínuna, Hattarann og Lísu, leysa ýmis verkefni og forðast Hjartadrottninguna og hirðmenn hennar og finna hvítu drottninguna…þvílíkt ævintýri! Þegar stelpurnar voru hólpnar fengu þær smá kvöldkaffi og fóru svo beint í rúmið.

Við ákváðum að sofa aðeins lengur í morgun enda voru stelpurnar lang flestar enn sofnadi þegar átti að vekja þær. Eftir hin hefðbundnu morgunverk fóru stelpurnar á biblíulestur og við heyrðum söguna af því þegar Jesús stillti storminn. Við ræddum svo saman um hvaða erfiðleikar geta mætt okkur á lífsleiðinni og hversu gott sé að vita til þess að Guð muni alltaf ganga með okkur í gegnum alla okkar erfiðleika. Stelpunar kepptu síðustu leikina í brennókeppninni og fóru svo beint í hádegismat.

Núna eru stelpurnar á víð og dreif um skóginn hér í kring í ratleik þar sem reynir á samvinnu og vandvirkni.

Á eftir tekur svo við veisludagskrá. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hvað það er lítið eftir af flokknum en það verður samt nóg að gera hjá okkur alveg þangað til þær koma heim á morgun 🙂

 

Myndir úr flokknum!

 

Hvað var í matinn?

Hádegismatur: Fiskibollur í karrýsósu og grænmeti

Kaffitími: Pizzasnúðar og kókoskúlur

Kvöldmatur: Mexíkósk súpa með pasta og snakki og quesadilla

Kvöldkaffi: Epli og perur

Morgunmatur: Hafragrautur, Cheerios, Kornflakes og súrmjólk

Hádegismatur: Skyr og brauð

 

Við sendum frábærar veisludags kveðjur héðan úr Ölveri,

Hjördís Rós