Þá er það síðasta færslan frá þessum flokki. Eftir kaffi í gær var frjáls tími. Allar stelpurnar fóru í heita pottinn eða sturtu og svo var boðið upp á fastar fléttur fyrir þær sem vildu. Allar fóru í fínu fötin sín og svo var boðið til veislukvöldverðar þar sem stelpurnar fengu Ölvers pizzu og ís í desert. Eftir það tók við svakalega skemmtileg veilsukvöldvaka þar sem foringjar flokksins léku á alls oddi og sýndu stelpunum hvert leikritið á fætur öðru. Í lokin fengum við svo að horfa á myndband sem hafði verið tekið upp allan flokkinn og voru stelpurnar í aðalhlutverki. Myndbandið sló rækilega í gegn og kvöldvakan endaði á því að við sungum saman nýja Ölverslagið 🙂

Stelpurnar gátu svo fengið sér ávexti í kvöldkaffi áður en þær fóru upp í rúm og bænakonan kom og las með þeim og svæfði þær.

Við vöknuðum svo aðeins seinna í morgun því allar stelpurnar voru þreyttir eftir fjör gærdagsins. Eftir morgunmat pökkuðum við dótinu saman og fórum svo á morgunstund þar sem við fengum að heyra sögu um Vimmana og hvað hver og ein stelpa er dýrmæt sköpun Guðs. Í þessum skrifuðu orðum er FORINGJABRENNÓ en þá keppir sigurlið brennókeppninnar við foringjana (stelpurnar eru mjög flinkar í brennó svo foringjarnir voru orðnir frekar stressaðir fyrir leiknum en það verður spennandi að heyra hvernig hann fór). Eftir brennókeppnina fá stelpurnar grillaðar pylsur og svo verður lokastund og verðlaunaafhending.

Áætluð heimkoma er í dag, miðvikudaginn 7. júlí, kl. 16:00 á Holtavegi 28

Síðustu 6 dagar hér í Ölveri hafa einkennst af miklu fjöri þar sem hver mínúta var nýtt í skemmtilega leiki og samveru. Þið megið því búast við því að það komi þreyttar Ölversstelpur heim á eftir.

Það er búið að vera dásamlegt að kynnast þessum frábæru stelpum sem þið eigið og við þökkum það traust sem þið hafið sýnt okkur með því að senda þær í Ölver. Við vonum svo sannarlega að þær hafi notið þess að vera hér síðustu daga og munum sakna þeirra. Við hlökkum til að sjá þær allar aftur á næsta ári!!! 🙂

 

Bestu kveðjur,

Hjördís Rós og starfsfólk Ævintýraflokks 🙂

Hér getið þið skoðað myndir úr flokknum.