Það voru 36 dásamlegar stelpur sem mættu upp í Ölver í dag, tilbúnar í viðburðaríka og ævintýralega viku. Við byrjuðum á því að safnast saman inn í matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig og farið var yfir helstu atriði. Þá var stelpunum skipt niður í herbergi og að sjálfsögðu fengu vinkonur að vera saman 😉 Þær sóttu síðan farangurinn sinn og komu sér fyrir. Þá var bjallað í hádegismat, jarðaberjaskyr og hvítlauksbrauð sem rann ljúft niður.
Eftir matinn fóru þær í ratleik, eins konar kynningarratleik þar sem þær kynntust staðháttum og hvor annarri betur. Eftir smá frjálsan tíma hittumst við svo uppi í sal og fórum í hópeflisleiki. Þá var haldið í kaffi þar sem ljúffeng skinkuhorn og jógúrtkaka biðu þeirra. Að kaffi loknu var róleg notaleg stund inn í matsal þar sem þær föndruðu dagbók sem þær munu skrifa í í vikunni. Þegar þeirri stund var að ljúka var þeim tilkynntur sá vandræðalegi atburður að kartöflurnar sem áttu að vera með steikta fisknum í kvöldmat væru horfnar, sem er náttúrulega hið versta mál. Aðstoðarforingjarnir lágu sterklega undir grun þar sem þær voru líka horfnar. Hófst mikil leit að þeim en fundust þær að lokum (með kartöflurnar!) langt inn í skógi en hjá þeim fengu stelpurnar vísbendingu um hver bænakona þeirra yrði. Hófst þá önnur leit innanhúss þar sem þær notuðu vísbendingarnar til að finna sína bænakonu. Bænakona er sá starfsmaður sem mun sjá um ákveðið herbergi alla vikuna, vera þeim innan handar og koma þeim í ró á kvöldin.
Þá var haldið í kvöldmat en í matinn var steiktur fiskur, með kartöflubátum ;), koktelsósu og grænmeti. Eftir kvöldmatinn var skemmtileg kvöldvaka þar sem farið var í leiki, mikið var sungið og foringjarnir sýndu leikrit sem vakti mikla lukku. Einnig fengu þær að heyra um kjarnakonuna Kristrúnu Ólafsdóttur sem stofnaði sumarbúðirnar í Ölveri.
Þá voru ávextir í kvöldkaffinu og fóru stelpurnar síðan að búa sig í háttinn. Nú er óðum að færast ró yfir húsið og vonandi eiga allir eftir að sofa vel í nótt eftir góðan dag.
Kær kveðja úr Ölveri
Erla Björg Káradóttir forstöðukona.