Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar í morgun og hófst dagurinn á morgunverði, þar sem boðið var upp á morgunkorn, súrmjólk og hafragraut. Þá var fáninn hylltur en það er rótgróin hefð hér í Ölveri. Eftir fánahyllingu tóku stelpurnar til í herbergjunum sínum enda hegðunar-og snyrtimennskukeppnin í fullum gangi.

Á fyrstu morgunstundinni fengu stelpunar að heyra sögu úr Nýja testamentinu um systurnar Mörtu og Maríu og lærðu mikilvægi þess að gefa sér tíma til að kyrra hugann og hlusta á hjartað.  

Þá var komið að þjóðaríþrótt Ölvers sem er brennó en brennókeppnin, fyrir þær sem vilja, hefst formlega á morgun.

Þá var blásið í hádegismat en í matinn var spaghetti bolognese og grænmeti sem rann ljúflega niður.

Eftir mat var haldið niður að Hafnará þar sem þær fengu að busla og nutu þess að vera úti í náttúrunni. Í kaffitímanum voru nýbakaðir pizzasnúðar og súkkulaðabitakökur á boði sem þær borðuðu að sjálfsögðu með bestu lyst.

Eftir kaffitímann söfnuðumst við upp í sal og þar kenndi Rósa ráðskonan okkar, sem er mikil tónlistarkona, stelpunum „cup song“ með nýjum Ölverstexta. Stelpunar skelltu glösum í takt i gólfið eftir kúnstarinnar reglum og sungu hátt og vel. Þetta var mjög gaman, flottar og hæfileikaríkar stelpur hér á ferð. Eftir tónlistarstundina var komið að brjóstsykursgerð! Hvert herbergi fékk að velja bragðefni og lit og allar bjuggu til sínn eigin brjóstsykur og settu í nammipoka. Síðan fóru flestar stelpurnar í heita pottinn eða sturtu og eitt herbergið æfði leikrit fyrir kvöldið.

Í kvöldmat var grænmetisbuff og cous cous. Þegar allir voru orðnir saddir var blásið í kvöldvöku. Þar var sungið, farið í leiki og sýnd leikrit en síðan heyrðu þær söguna „Þú ert frábær“ eftir Max Lucido en sú saga kennir okkur að bera okkur ekki saman við aðra og að dæma ekki aðra.

Haldið var næst í kvöldkaffi þar sem þær fengu ávexti og fóru þær síðan inn á herbergin og áttu gæðastund með sinni bænakonu. Það sem þær vissu ekki var að það var heljarinnar náttfatapartý í vændum…Mjög skrítnar verur bönkuðu upp á herbergin og sóttu bænakonurnar og ekki leið á löngu þar til dynjandi tónlist heyrðist úr salnum. Þegar þetta er skrifað eru þær nýkomnar niður, eru að jappla á brjóstsykrunum (líka búnar að fá ís) svo ég veit ekki alveg hvenær þær eiga eftir að sofna í kvöld. Vonandi mun nú samt ganga vel að koma þeim í ró, ég hef mikla trú á því enda eru þær einstaklega góðar og flottar stelpur.

Við kveðjum hér úr Ölveri í bili eftir frábæran dag 😉 Fleiri fréttir á morgun.

Erla Björg og starfsfólk Ölvers