Í dag voru stelpurnar vaktar kl.9 og hófst dagurinn á morgunverði að vanda. Þá var fáninn hylltur og síðan tók við hin daglega tiltekt í herbergjunum. Veðrið lék við okkur í dag og sólin skein og nýttum við það til fulls með mikilli útiveru.

Á morgunstundinni spjölluðum við saman um hugsanir okkar, hvernig við getum greint þær og unnið með þær. Við ræddum einnig mikilvægi þess að tala fallega við okkur sjálfar og um mikilvægi þess að finna innri sátt. Eftir morgunstundina var farið niður í sal og föndruðu þær stjörnur og skrifuðu inn í þær fallegar og uppbyggjandi setningar sem þær myndu vilja segja við sig sjálfar á hverjum degi. 

Í hádegismatinn voru fiskibollur með hrísgrjónum og karrýsósu og grænmeti.

Eftir matinn var farið í eins konar hringekju. Stöðvarnar sem voru í boði voru leikir í lautinni, að læra á ukulele, trölladeig og Ty dy handklæði 😉 Frábær vinna og þær skemmtu sér mjög vel.

Í kaffitímanum fengu þær dýrindis ölversbollur og bananaköku. Eftir kaffitímann hófst brennókeppnin og síðan æfðu tvö herbergi leikrit fyrir kvöldvökuna og nokkrar völdu að fara í heita pottinn. Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og brauð með áleggi.

Kvöldvakan var á sínum stað og þar var mikið fjör og gaman eins og alltaf, þar sem tvö herbergi sáu um að skemmta hinum. Þá var komið að ávaxtastund og nú eru þær að undirbúa sig fyrir háttinn og munu síðan eiga gæðastund með bænakonunum sínum inn á herbergi. 

Kærleikskveðja héðan úr Ölveri