Það er aldeilis búið að vera frábært hér í fókusflokki hjá okkur, gleðin svo sannarlega við völd. Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt var haldið á morgunstund eða biblíulestur. Þar fengu stelpurnar að heyra söguna um Bartimesus blinda sem Jesú læknaði en sú saga kennir okkur að gefast aldrei upp, leyfa rödd okkar að heyrast og láta aldrei neinn þagga niður í okkur eða kæfa niður draumana okkar. 

Eftir morgunstundina hélt brennókeppnin áfram. Í hádegismatinn var grjónagrautur og brauð með alls konar áleggi og borðuðu stelpurnar mjög vel.,

Eftir hádegi var haldið áfram með hringekjuna síðan í gær. Annar hópurinn skolaði úr Ty dy handklæðunum sínum sem eru aldeilis litrík og falleg en hinn hópurinn málaði á trölladeigið sitt. 

Í kaffinu var boðið upp á ljúffengar karmellulengjur og bleika kanilsnúða og var kaffið drukkið úti. Veðrið var milt og gott þó sólin hafi ekki látið sjá sig. 

Eftir kaffi var farið í „Top model“ verkefni en þar reyndi á sköpun og samvinnu og endaði á flottri tískusýningu niður í laut þar sem stelpurnar sýndu afrakstur sinn. Þá fóru nokkrar stelpur í heita pottinn eða sturtu og tvö herbergi undirbjuggu leikrit fyrir kvöldið.

Í kvöldmat var tómatsúpa með nachos og rifnum osti og quesadilla. 

Það var mikið fjör á kvöldvökunni eins og alltaf en kvöldvakan hafði síðan óvæntan endi. Tvær furðuverur birtust á skjánum með þau skilaboð að allar stelpurnar yrðu að ganga ævintýragang þ.e að fara inn í ævintýraheim. Til þess þyrftu þær vegabréf sem þær útbjuggu, bundið var fyrir augun á þeim og þær leiddar í hvert ævintýrið á fætur öðru. Þær hittu m.a fyrir norn sem var búin að blanda ógeðisdrykk sem þær þurftu að smakka, brjálaða söngkonu sem vildi fá dóm á söng sinn,  sjóræningja sem var heldur illa farinn og Gullbrá sem lét þær smakka mjög svo undarlega grauta. Eftir allt ævintýrið voru þær leiddar inn í matsal þar sem þær voru boðnar velkomnar á Café Ölver. Þar fengu þær vöfflur, sykurpúðaköku og heitt kakó. Allt í einu voru allar stelpurnar komnar út til að viðra sig og einhvern veginn enduðum við í hálfgerðum brekkusöng stuttu eftir miðnætti! 

Bænakonurnar fóru svo inn á herbergin þegar allar voru tilbúnar í háttinn og ró er að komast á húsið og ætla ég ekkert að segja ykkur hvað klukkan er orðin….þær fá reyndar að sofa aðeins lengur í fyrramálið 😉 

Á morgun er síðasti heili dagurinn okkar saman, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Þá er veisludagur og heldur fjörið svo sannarlega áfram.

Kærleikskveðjur héðan úr Ölveri