Þá er veisludagur runninn upp. Stelpurnar vöknuðu hressar í morgun en fengu að sofa örlítið lengur en vanalega. Morguninn var hefðbundinn en á morgunstundinni töluðum við saman um styrkleika okkar og gildi, hvað það er mikilvægt að þekkja sjálfan sig vel, að vera rótfastur í sér og standa með sér. Við töluðum hvernig allir hafa hlutverk í lífinu og hvað það er mikilvægt að leyfa sér að blómstra. Biblíusagan sem lögð var til grundvallar er dæmisaga Jesú um talenturnar og dæmisagan um smiðina tvo, sem byggðu líf sitt annars vegar á bjargi en hins vegar á sandi.
Í hádegismatinn var kalt pastasalat og hvítlauksbrauð sem þær borðuðu með bestu lyst.
Eftir matinn var stelpunum skipt upp í 3 hópa fyrir aðra hringekju. Einn hópurinn málaði frá hjartanu, annar hópurinn vann með styrkleika og gildi en sá þriðji fór í slökun og hugleiðslu. Mjög notalegt og gott í rigningunni og rokinu.
Í kaffitímanum fengu þær kryddköku og súkkulaðiköku og eftir kaffi var potta og kósýstund þar sem þær undirbjuggu sig fyrir veislukvöldmáltíðina.
Þá hófst veislukvöldmatur sem var pizza og fengu þær rice crispies í eftirrétt. Þá var blásið til kvöldvöku þar sem starfsfólkið sýndi hvert leikritið af fætur öðru af sinni alkunnu snilld. Bænakonurnar fóru svo inn herbergin sín og komu á ró eftir frábæran dag.
Á morgun er heimfarardagur, ótrúlegt en satt, vikan hefur liðið svo hratt! Áætlað er að rútan komi um kl.16 í bæinn.
Kær kveðja héðan úr Ölveri