Unglingadísirnar eru mættar á svæðið! Langflestar eru alvanar staðnum en þó nokkrar sem eru að koma í fyrsta skipti.

Stelpurnar byrjuðu á því að koma sér fyrir, allar vinkonur saman í herbergi og hingað til eru allir alsælir með herbergin sín og herbergisfélaga.

Eftir að allir voru búnir að búa um sig og fá sér hádegismat fór allur hópurinn upp í kvöldvökusal í leiki þar sem áhersla var lögð á að læra nöfn allra í flokknum, ótrúlegt en satt að þá er starfsfólkið búið að læra öll nöfn stelpnanna í hópnum og það strax á fyrsta degi. Þar sem við ætlum að búa svona margar saman næstu vikuna langar okkur að geta kallað á hver aðra með nafni og það helst frá fyrsta degi svo það hefur gengið vonum framar.

Þegar stelpurnar voru að ljúka við kaffihressingu birtust þrjár óþekkjanlegar konur sem dönsuðu og löbbuðu í takt við popp tónlist. Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar stelpurnar komust að því hvað þær væru að fara að gera, það var komið að Ölver‘s Top Model. Leik/keppni sem snýst um og reynir á samvinnu hópsins og sköpunargáfu, hver hópur fékk tvo ruslapoka, band, skæri og límband. Verkefni hópanna var að búa til klæðnað úr ruslapokunum en þær mega aðeins nota það sem þær fengu afhent og það sem hægt er að finna úti í náttúrunni. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og starf dómaranna því alls ekki auðvelt í þetta skiptið. Þegar búið var að mynda alla hópa og taka hönnunina út af dómurum breyttist tónlistin allt í einu og starfsfólkið fór að haga sér fremur undarlega, það virtist einhver athöfn vera að fara í gang….. jú það var komið að því að kynna bænakonur herbergjanna en það var gert með áhugaverðum og skrítnum hætti sem virtist hitta ágætlega í mark hjá unglingunum.

Stelpurnar voru svangar eftir daginn og borðuðu mjög vel í kvöldmatnum, ráðskonunni til mikillar gleði.

Kvöldvakan var með hefðbundnu sniði í kvöld þar sem eitt herbergi sá um skemmtiatriði fyrir hópinn og fékk ágætt lof fyrir, og að sjálfsögðu var einnig mikið sungið líkt og tíðkast á kvöldvökunum hér í Ölveri. Eftir kvöldvökuna voru stelpurnar enn í fullu fjöri og því ágætt að dagskráin var svo sannarlega ekki búin. Stelpunum var skipt í lið eftir herbergjum og sendar út í óhefðbundinn ratleik sem hefur það að markmiði að stelpurnar kynnist hver annarri betur og staðnum og svæðinu okkar hér í Ölveri í leiðinni.

Þegar liðin fóru svo að detta aftur í hús var ákveðið að halda partýinu gangandi og henda í NÁTTFATAPARTÝ! .. Þvílíka stemningin! Það var mikið dansað og mikið sungið og massa stuð á öllum hópnum.

Stelpurnar voru þreyttar eftir daginn og því komst mjög fljótt ró í húsið.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Hádegismatur: Skyt og pizzabrauð
Kaffi: Kryddbrauð, súkkulaðikaka og djús
Kvöldmatur: Steiktur fiskur með öllu tilheyrandi
Kvöldkaffi: Íspinni og ávextir