Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar kl. 09:00 í morgun og sváfu nokkuð vel þrátt fyrir mikla spennu, nýtt umhverfi og vera svona margar saman í herbergi.

Morguninn var með hefðbundnu sniði. Byrjuðum á að fá okkur smá næringu, fórum svo út í fánahyllingu, tókum vel til í herbergjunum okkar (hegðunarkeppnin formlega hafin) og fórum svo á morgunstund. Í lok morgunstundarinnar voru brennóliðin kynnt og brennókeppni flokksins formlega sett. Hópurinn fór þá rakleiðis út í íþróttahús með keppnisskapið og hvatningarópin að vopni.

Eftir hádegismat var blásið til ÖLVERSLEIKA! Stelpunum var þá skipt upp í lið eftir herbergjum og hvert herbergi einkennt með lituðu Ölvers-vesti. Þær áttu svo að fara á milli stöðva og leysa hinar ýmsu þrautir ýmist sem einstaklingar eða sem hópur. Þrautirnar voru margar hverjar virkilega furðulegar og var meðal annars keppt í furðuveru, grettum, BROSI, könglulóáannarri-boðhlaupi, giskaðu á krukkuna, bollubjörgun og túttusparki, svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir kaffitímann var komið að HÆFILEIKAKEPPNI. Stelpurnar fengu hálftíma til að æfa atriði og svo mættu dómararnir á svæðið. Hópurinn kom starfsfólkinu svo sannarlega á óvart… þvílík hæfileikabúnt! Þetta var klárlega ein flottasta hæfileikakeppni sem við höfum séð í langan tíma.

Á kvöldvökunni sá eitt herbergi um að skemmta hópnum og var með dansatriði, einn leik og eitt leikrit. Þegar kvöldvakan var alveg að klárast réðust tveir starfsmenn inn með látum og hófu NÁTTFATAPARTÝ, annað kvöldið í röð. Gleðin leyndi sér sko ekki og hópurinn náði að framkalla einstaka stemningu á skotstundu. Þegar stelpurnar voru búnar að koma sér í náttgallann, syngja og tralla í góða stund var þeim boðið uppá að skipta um gír og breyta gleðskapnum í bíókvöld þar sem þær horfðu á myndina Lísa í Undralandi og fengu popp og matarkex.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Fiskibollur, karrýsósa og hrísgrjón
Kaffi: Súkkulaðibitakökur og bleikir kanilsnúðar
Kvöldmatur: Pítu – hlaðborð
Kvöldkaffi: Popp og matarkex