Stelpurnar voru vaktar um kl. 09:15 og byrjuðu daginn á því að græja sig og fá sér næringu. Eftir að allir höfðu fengið næringu og vaknað almennilega tók við smá tiltekt inni á herbergjunum. Þegar öll herbergi voru orðin hrein og fín voru stelpurnar kallaðar á morgunstund þar sem þær hlustuðu á stutt fræðsluerindi en þegar því var lokið var þeim boðið niður í matsal þar sem það væru leynigestir mættir í hús. Í matsalnum tóku Imma og Halla á móti hópnum en þær þjálfa/kenna sjálfsvörn hjá íþróttafélaginu Tý. Margar könnuðust við þær en Týr hefur verið áberandi á samfélagsmiðliðnum TikTok síðustu vikur. Imma og Halla fóru yfir grunnatriði í sjálf- og neyðarvörn og spjölluðu aðeins við stelpurnar um öryggi. Þær voru með okkur í um klukkustund og sló kynningin heldur betur i gegn.
Eftir hádegismat var komið að næstu umferð í brennókeppni flokksins. Keppnin er ansi hörð og liðin virkilega sterk og mikið keppnisskap í hópnum. Þær eru með hvatningarópin á kristaltæru og duglegar hvetja að vinkonur sínar áfram.
Eftir kaffitímann var ákveðið að hafa rólega stund. Starfsfólkið kallaði eitt herbergi í einu inn í matsal þar sem stelpurnar fengu að búa til sinn eigin brjóstsykur. Hver hópur valdi sinn lit og sitt bragð og svo gerði hver og ein sinn brjóstsykurspoka. Þetta vakti mikla lukku og gekk vonum framar.
Í framhaldinu var þeim sem vildu boðið upp á sturtur og pott. Flestar fóru í pottinn en aðrar vildu aðeins fara í sturtu. Þær sem vildu fengu kaffiskrúbb í sturtunni, smá dekur og dúll fyrir kvöldið.
Kvöldvakan var passlega öðruvísi í kvöld en þar fengu stelpurnar framhald af fræðsluerindinu frá því í morgun en fjallað var um Hinseginleikann. Erindið skapaði mjög flottar og góðar umræður í hópnum sem hefðu vel geta staðið langt fram eftir. Í kjölfarið kom svo stjórn KSS og var með kynningu á starfi sínu fyrir stelpurnar. Þegar þau höfðu tekið gott spjall við stelpurnar var eitt herbergi með skemmtiatriði, eitt leikrit og einn leik, og eins og áður var mjög mikið hlegið. Þegar kvöldvakan var að klárast hvarf starfsfólkið allt í einu …. gat það virkilega verið …. enn eitt náttfatapartýið!? Já, heldur betur! ooog stemninginn svona gríðarleg … Í þetta skiptið stóð það þó bara yfir í nokkur lög þar sem starfsfólkið var aðeins að kaupa sér tíma á meðan það var verið að stilla upp matsalnum fyrir næsta dagskrárlið – ÍSBAR! Starfsfólkið kom stelpunum heldur betur á óvart þegar þær settu upp ÍS-BAR með öllu tilheyrandi í kvöldkaffinu, ísinn vakti mjög mikla lukku.
Þessi unglingahópur er hreint einstakur – þær eru virkar og svo sannarlega til í allt!
Við hreinlega dýrkum þær – allar sem eina!
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Kjúklingaleggir, kartöflubátar, hrásalat og sósa
Kaffi: Bleikar brauðbollur, bleikar karmellulengjur og bleik sjónvarpskaka
Kvöldmatur: Ávaxtasúrmjólk og brauð
Kvöldkaffi: Ís-hlaðborð