Stelpurnar voru vaktar með tónlist í morgun (kl. 09:30) og við áttum frekar hefðbundinn og góðan morgun. Tókum til í herbergjunum okkar, áttum krúttlega morgunstund og spiluðum brennó.

Eftir hádegismat var ákveðið að njóta aðeins í sólinni og því farið í göngu niður að læk. Þar fengu stelpurnar að vaða og leika sér ásamt því að skreyta steina og fleira skemmtilegt.

Eftir kaffitímann var ákveðið að taka hópmynd af stelpunum fyrir framan húsið sem endaði þannig að stelpurnar tóku sig til og hentu nokkrum starfsmönnum í pottinn, að undirritaðri meðtaldri! Upp frá því hófst VATNSSTRÍÐ og á endanum var allur hópurinn kominn ofan í pottinn í öllum fötunum.

Þegar allir voru búnir að sturta sig og fara í hrein föt borðuðum við dýrindis kvöldmat og hentum svo í huggulega kvöldvöku.

Kvöldvakan var með hefðbundnu sniði og sá eitt herbergi um leikherbergi og hlaut, sem áður, mikið lof fyrir. Þegar kvöldvakan var að klárast komu tveir starfsmenn inn með látum og reyndu að byrja enn eitt náttfatapartýið!! Forstöðukonan tók aldeilis ekki vel í það og varð eiginlega alveg brjáluð! Stelpurnar vissu ekki alveg hvað þeim ætti að finnast… var hún að grínast eða var henni alvara… hún var svo reið eitthvað…

Hópnum var í framhaldinu skipað að fara niður í matsal og bíða frekari fyrirmæla… Þar sátu stelpurnar í algjörri þögn og biðu… Inn óð svo lafmóður starfsmaður í mjög áhugaverðum búning. Það var komið að ÆVINTÝRALEIK FLOKKSINS! Stelpurnar voru ótrúlega spenntar og fljótar að bregðast við. Þær fengu fyrsta verkefnið inni í sal en um leið og þær náðu að leysa það fengu þær næsta verkefni. Leikurinn byggðist á ævintýrinu Lísa í Undralandi og reynir á samvinnu og útsjónarsemi hópsins. Til að „vinna“ leikinn þurfa þær að hjálpast að og vinna saman. Það tók þær smá tíma að átta sig á því hve mikilvæg samvinna getur verið og hve mikilvægt það er að hlusta vel á fyrirmæli. Um leið og þær fóru að vinna saman voru þær enga stund að klára leikinn.

Þegar allur hópurinn hafði unnið sig í gegnum leikinn og komist í höfn var tekinn stuttur fundur í matsalnum um leikinn og forstöðukonan baðst afsökunar á því hve grimm hún hefði verið í upphafi leiks en þar sem svo margar hafa komið áður lagði starfsfólkið sig extra mikið fram við að koma hópnum á óvart og selja þeim leikinn. Í „sárabætur“ var hópnum boðið að koma út aftur þar sem búið var að stilla upp VARÐELD og við áttum mjög notalega stund þar sem við sungum, grilluðum sykurpúða og banana með súkkulaði.

Það var mikill galsi í hópnum eftir viðburðaríkan og skemmtilegan dag. Það tók smá tíma að fá ró í húsið en það gekk samt mjög vel.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Hakk og spaghetti
Kaffi: Skinkuhorn og norsk tekaka
Kvöldmatur: Mexico hlaðborð með öllu tilheyrandi
Kvöldkaffi: Varðeldur – grillaðir bananar, kex og sykurpúðar