Stelpurnar okkar fengu að sofa aðeins út í dag og voru vaktar um kl. 10:30. Þegar allar voru komnar á fætur fengu þær smá næringu og fóru svo strax í að taka til og græja sig fyrir daginn. Í framhaldi af því áttum við smá morgunstund saman og spjall, margir sögumenn í hópnum og því var þetta mjög huggulegt og áhugavert. Eftir morgunstundina var komið að brennó, mikil spenna fyrir leikjum dagsins og mikill æsingur. Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir hvað þær eru ótrúlega duglegar að hvetja hver aðra, algjörlega aðdáunarvert.

Eftir hádegismat fór að hljóma frekar drungaleg og skrítin tónlist í húsinu, forstöðukonan sást svo labba um húsið en sagði þó ekki neitt, stelpurnar voru fljótar að átta sig á að það var eitthvað ævintýralegt að byrja. Þær eltu og reyndu að kalla fram viðbrögð hjá undirritaðri en tókst misvel til. Allt í einu bættist einn starfsmaður í hópinn sem líkt og forstöðukonan sagði ekki neitt en lét þó frekar undarlega. Stelpurnar voru svo leiddar inn í matsal, sem búið var að breyta og skreyta, í einfaldri röð þar sem hver og ein fékk nafn og starfsheiti til að vinna út frá. Verkefnið var svo að setja sig inn í hlutverkið og búa til stutta baksögu um sína persónu. Hópurinn fór því næst í leik sem er kallaður „Varúlfur“ en leikurinn reynir mikið á sköpun, leiklist og útsjónasemi hópsins. Eftir leikinn var orðið frekar heitt og þungt loft inni í salnum og var því ákveðið að fara í stutta gönguferð fyrir kvöldmat, fá smá ferskt loft og hressa sig við eftir að hafa setið inni í allann dag.

Á kvöldvökunni voru tvö herbergi sem sáu um skemmtiatriði, annað gerði góðfúslegt grín af starfsfólki og hlaut einróma lof fyrir! Þegar hópurinn var að syngja lokalagið birtist allt í einu myndband á skjánum… hvað var að gerast? Eftir að myndbandið kláraðist óð inn skrítinn karakter… virtist vera tollvörður. Hann sagði þeim að þær yrðu að útbúa vegabréf til að komast í ævintýralandið Ölver. Búið var að breyta húsinu í eitt stórt ævintýri! Stelpurnar löbbuðu um húsið í hópum og hittu þar, dúkku með gátur, sjóræningja, bilaða söngkonu, völuvæluskjóðu og mjög virka leiðara. Hópurinn endaði svo í kvöldpotti og sturtum en þegar stelpurnar komu upp úr var búið að breyta matsalnum í kaffihús sem bauð upp á vöfflur með öllu tilheyrandi og kremköku.

Þessi hópur kemur okkur starfsfólkinu stöðugt á óvart, þær eru algjörlega æðislegar og okkur er farið að kvíða fyrir því að kveðja þær!


Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Grjónagrautur
Kaffi: Ölversbrauðbollur og ávextir
Kvöldmatur: Grænmetisbuff, cous cous og salat
Kvöldkaffi: Vöfflur með öllu tilheyrandi