Það komu 45 hressar 10-12 ára stelpur í Ölver í dag. Ævintýraflokkur, 8.flokkur, er hafinn með tilheyrandi sprelli og gleði.

Þegar þær komu í hádeginu byrjuðum við á að fara yfir reglur staðarins og raða þeim niður í herbergin. Þegar þær voru búnar að koma sér fyrir fengu þær skyr og pizzabrauð að borða. Eftir hádegismatinn var stuttur ratleikur um svæðið en þær eru þónokkuð margar sem hafa ekki komið hingað áður. Þær fóru einnig í nafnaleik og fleiri skemmtilega leiki.

Eftir kaffi fóru þær út í íþróttahús og brennókeppnin er formlega hafin. Liðin eru 6 og stelpunum er raðað handahófskennt í þau. Nöfn liðanna eru að þessu sinni fengin úr smiðju Disney.

Stúlkurnar í Fuglaveri undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna. Þegar leið á kvöldvökuna hurfu allir foringjarnir en þeir „týndust“ úti í skógi og stelpurnar voru sendar út til að finna sína bænakonu. Leitin að týndu bænakonunum gekk mjög vel og þegar stelpurnar höfðu fundið sína bænakonu komu þær inn og fengu epli og banana í kvöldkaffi. Eftir tannburstun fóru bænakonurnar inn á herbergin og lásu fyrir þær og báðu kvöldbænirnar. Nú er klukkan orðin rúmlega 23 og það er komin ró í húsið þótt sjálfsagt séu einhverjar enn ekki alveg sofnaðar.

Við komum með frekari fréttir annað kvöld.
Þóra forstöðukona.