Í morgun voru flestar, ef ekki allar stelpurnar vaknaðar klukkan 9 þegar átti að vekja þær. Morgundagskráin var hefðbundin, morgunmatur kl. 9:30, fánahylling, tiltekt í herbergjum, biblíulestur og brennókeppni. Það eru sex lið í brennókeppninni og hvert lið leikur einn leik á dag, sem endar svo síðasta daginn með úrslitaleik á milli foringja og þess liðs sem vann flesta leiki. Í hádegismat fengu þær hakk og spaghetti og hvítlauksbrauð ásamt grænmeti.

Eftir hádegi vorum við með Ölversleika en þá er keppt í alls konar óhefðbundnum íþróttagreinum á borð við stafarugl, jötunfötu, hopp á Einari (öðrum fæti), spretthlaup, lautarhlaup, skapa sína eigin furðuveru og ýmislegt fleira. Þær skemmtu sér allar vel. Eftir kaffi var hæfileikakeppnin Ölver’s got talent. Það voru sýnd 8 eða 9 atriði, hvert öðru skemmtilegra. Eftir hæfileikakeppnina þá fóru stelpurnar í heita pottinn og Fuglaver og Fjallaver undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna.

Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og brauð. Eftir kvöldmatinn var kvöldvaka þar sem hvort herbergi var með eitt leikrit og einn leik. Það var mikið sungið og stelpurnar fengu líka að heyra dæmisögu um hvernig Guð getur svarað bænum okkar. Þær fengu appelsínur og perur í kvöldkaffi og fóru svo inn að hátta og bursta tennur. En þegar flestar stelpurnar voru komnar upp í rúm hlupu foringjarnir um gangana og börðu í potta og pönnur því það var komið NÁTTFATAPARTÝ! Það var mikið fjör og mikið gaman, þvílíkt mikið dansað og sungið! Þær fengu ís að loknu náttfatapartýi og fóru því aftur að bursta tennurnar 🙂 Bænakonurnar eru inni á herbergjunum núna og eru að lesa fyrir þær og koma stelpunum í ró.

Við erum alltaf að vonast eftir betra veðri, í gær var sól framan af en varð skýjað upp úr kl. 16. Í dag var vindur og af og til skúrir en alls ekki kalt. Veðurspáin er víst voða svipuð það sem eftir lifir af flokknum en það má alltaf vonast eftir smá sólarglætu 🙂

Ég set inn nýja færslu annað kvöld.

Kær kveðja,
Þóra forstöðukona.