Þá er þessi dagur að kvöldi kominn. Morgunninn var hefðbundinn, stelpurnar vaktar kl. 9, morgunmatur, fánahylling, tiltekt á herbergjum, biblíulestur og brennó. Í hádegismat fengu stelpurnar fiskibollur, hrísgrjón og karrýsósu. Þær borðuðu vel. Eftir hádegismatinn var Ölver’s Next Top Model. Hvert herbergi valdi eina stelpu til að vera módelið og hjálpuðust að við að gera hana fína. Efniviðurinn sem þær máttu nota var einn svartur ruslapoki, bönd, límband, kaffipoka og ýmislegt úr náttúrunni. Þær skemmtu sér mjög vel.

Eftir Top Model keppnina þá var brjóstsykursgerð. Hverju herbergi fyrir sig var boðið að velja bragðtegund og svo gerðu þær sína eigin brjóstsykursmola. Það lukkaðist vel og stelpurnar áttu þá smá nammi fyrir bíómyndina sem þær horfðu á fyrr í kvöld. Þeim sem vildu var boðið að fara í sturtu og tvö herbergi, Hamraver og Skógarver, skipulögðu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna.

Í kvöldmatinn fengu stelpurnar heimatilbúna tómatsúpu með pasta og Doritos snakki og tortilla kökur með salsasósu og osti, hitað í ofninum. Þær borðuðu mjög vel.

Á kvöldvökunni sungu þær alla skemmtilegustu Ölverssöngvana og horfðu á tvö leikrit og tóku þátt í tveimur leikjum. Strax eftir kvöldvökuna var bíósýning en þær horfðu á leiknu myndina um Lísu í Undralandi – en hún tengist svo ævintýraleik sem við ætlum að hafa fyrir stelpurnar á sunnudaginn.

Myndirnar frá deginum ættu að koma inn í fyrramálið.

Með kveðju, Þóra forstöðukona.