Heil og sæl.

Í dag fengu stelpurnar að sofa hálftíma lengur vegna þess að bíómyndinni lauk ekki fyrr en rúmlega 23 í gærkvöldi og þá áttu þær eftir að koma sér að bursta tennur og upp í rúm ásamt því að bænakonurnar áttu eftir að fara inn á herbergi til að biðja kvöldbænirnar.

Eftir morgunmat var fánahylling, þá tiltekt og biblíulestur og loks brennó. Þær fengu grænmetisbuff, kúskús og jógúrtsósa í hádegismat. Eftir hádegi fórum við í göngutúr niður að á. Það er frekar mikið í ánni núna og mörgum stelpum fannst geggjað góð hugmynd að vaða á tánum í henni, þrátt fyrir sólarleysi. Það gekk allt saman vel en nokkrar þeirra urðu heldur mikið blautar og kaldar. Þær fengu að fara í sturtu um leið og þær voru komnar aftur upp í Ölver. Í kaffitímanum fengu þær heitt súkkulaði með rjóma, kanilsnúða og gulrótarköku. Það vakti mikla lukku.

Eftir kaffi var pottur og/eða sturta í boði, ásamt perlum, vinaböndum og að fá fléttur. Það er svo auðvitað alltaf í boði að spila uppi í sal, lita og teikna, fara út í íþróttahús í boltaleiki og leika úti í skógi eða á fótboltavellinum okkar. Stelpurnar í Hlíðarveri æfðu atriði fyrir kvöldvökuna, eitt leikrit og einn leik.

Í kvöldmatinn fengu stelpurnar grjónagraut með kanilsykri og brauð með kæfu, gúrku eða osti. Þær borðuðu allar alveg ótrúlega vel 🙂

Kvöldvakan var fremur stutt en svo tók við ævintýraleikur þar sem þær áttu að finna persónur úr Lísu í Undralandi og fá hjá þeim ýmsa hluti til að komast til Hvítu drottningarinnar. Eftir ævintýraleikinn var svo kaffihús í matsalnum en þær fengu nýbakaðar vöfflur, sjónvarpsköku og tebollur og djús að drekka. Eftir þetta var loksins komið að háttatíma og bænakonurnar fóru inn á herbergin til að lesa fyrir þær og biðja kvöldbænirnar.

Myndir frá deginum koma inn í fyrramálið.

Á morgun er veisludagur. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt þegar það er gaman 🙂

Kveðja, Þóra forstöðukona.