Heil og sæl.

Stelpurnar fengu „útsof“ í morgun – til kl. 9:30. Morgnarnir eru yfirleitt allir eins – morgunmatur, fánahylling, biblíulestur og brennó. Í morgun kom í ljós hvaða brennólið sigraði brennókeppnina og mun keppa á móti foringjunum í fyrramálið.

Í hádegismat fengu stelpurnar pastasalat. Þær borðuðu vel en einhverjar fengu grænmetisbuff frá því í gær því þær vildu ekki pastasalatið. Eftir hádegismat var leikur sem við köllum ævintýragang. Stelpurnar búa til vegabréf til að mega fara inn í ævintýraheiminn og fara á fjórar stöðvar þar sem þær þurfa að leysa ákveðin verkefni. Þegar þær kláruðu leikinn komu þær niður í matsal og perluðu eða bjuggu til vinabönd.

Í kaffinu fengu þær skúffuköku og rice krispies köku. Það var ein stúlka sem átti 12 ára afmæli og hún fékk afmælissöng og köku með kerti 🙂

Eftir kaffi var pottur og sturta ásamt því að fara í fínu fötin. Þær sem vildu fengu fastar fléttur. Veislukvöldmaturinn var pizza  og þvílíkt sem þær borðuðu! Þær voru mjög ánægðar með pizzurnar. Foringjarnir sáu um skemmtiatriðin á kvöldvökunni og þær skemmtu sér mjög vel. Eftir kvöldvöku fengu þær epli og perur í kvöldkaffi og fóru svo inn að hátta og bursta tennur áður en bænakonurnar fóru inn til þeirra.

Þessir dagar hafa liðið ótrúlega hratt og ég trúi því varla að við séum að fara heim á morgun.

Bestu kveðjur úr Ölveri,
Þóra forstöðukona.