Það voru 46 spenntar (já svo spenntar að sumar þeirra hreinlega skríktu þegar komið var á staðinn) stúlkur sem mættu í Ölver í gær, voru margar búnar að bíða svo mánuðum skipti eftir að koma hingað og var því gleðin mikil þegar hingað var komið.  Fóru þær allar inn í matsal, þar sem starfsmenn kynntu sig og farið var yfir allar nauðsynlegar upp.  Eftir að raðað var í herbergi fóru þær og komu sér fyrir, já og var það gert á methraða enda allar orðnar MJÖG svangar.  Í hádegismat var ljúffengt skyr og pizzabrauð sem rann ljúflega niður.
Þegar allar höfðu borðað nægju sína var farið út að skoða svæðið, endað við niður í laut og farið í nafnaleiki og fleiri leikjum.
Í kaffitímanum fengu stúlkurnar pizzasnúða og epli. Eftir kaffi fóru allar stelpurnar út að leita að sinni bænakonu og gekk leitin vel og var mikil skemmtun þar sem foringjarnir og aðstoðarforingjarnir höfðu klætt sig úpp í búninga og falið sig í nágrenni hússins.  Þegar öll herbergi höfðu fundið sína bænakonu hófst hin æsispennandi brennókeppni, sem er daglegur viðburður hér í Ölver og heita öll liðin í þessum flokki eftir Disney prinsessum.

Í kvöldmat var ljúffengur steiktur fiskur með kartöflubátum og borðuðu allar mjög vel.  Á kvöldvökunni voru það Lindaver, Hlíðaver og Skógarver sem voru með atriði sem þær höfðu æft og undirbúið.  Var sunginn heill hellingur og lærðu stúlkurnar fullt af nýjum söngvum og fengu svo að horfa á leikþátt frá foringjum um miskunnsama Samverjann.  Þegar búið var að syngja kvöldsönginn og þær héldu að nú væru allar að fara að hátta og bursta – komu foringjarnir og aðstoðarforingjarnir inn með tónlist og skellt var í náttfata-og íspartý við mikinn fögnuð.  Að lokum fengu svo allar sem vildu ávexti áður en farið var að bursta og græja sig fyrir nóttina.  Það tók smá tíma að sofna enda búið að vera mikið fjör en það voru að lokum þreyttar og sælar stúlkur sem sofnuðu vært fyrstu nóttina í Ölver.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719599188663

Fleiri fréttir á morgun
Brynja Vigdís, forstöðukona