Þrátt fyrir að hafa farð að sofa svona frekar seint, voru það hressar stúlkur sem vaktar voru kl.08 og aldeilis tilbúnar í daginn.  Í morgunmat var boðið upp á Ceerios, Kornflex og hinn sívinsæla hafragraut, sem allt rann ljúflega niður.  Eftir fánahyllingu, fóru stúlkurnar inn í herbergi að ganga frá og gera fínt og  svo var komið að  biblíulestri þar sem stúlkurnar fengu að heyra um Kristrúnu og sögu Ölvers, auk þess sem sungið var fullt og hitað upp fyrir brennókeppnina sem hélt áfram frá gærdeginum.  Liðin Moana, Mulan, Ariel, Elsa, Jasmin og Garðabrúða keppta sín á milli og er keppnin æsispennandi.

Í hádegismatinn fengu stúlkurnar hakk og spaghetti, og var vel borðað.  Hinir sívinsælu Ölversleikar voru haldnir að hádegismat loknum og þar var keppt m.a í ljóðaskrifum, lautarhlaupi, stígvélasparki, sippi, hver hefði breiðasta brosið, boltabjörgun og fleiru.  Boðið var upp á tebollur, kanilsnúða og banana í kaffitímanum áður en farið var í pottinn og undirbúningur hófst fyrir hæfileikasýninguna.  Í sýningunni tóku þátt þær sem vildu og þvílíkir hæfileikar sem í flokknum eru – við fengum að hlíða á söng, sjá leikrit, sirkusatriði og fleira og fleira.

Ölversgrjónagrauturinn var í kvöldmat og brauð með áleggi – gaman er að segja frá því að ekki var grjón eftir af grautunn svo vel borðuðu þær.

Á kvöldvökunni voru það Fuglaver, Fjallaver og Hamraver sem sáu um leikrit og/eða leiki, auk þess sem var sungið og hlustað á hugleiðinguna um vimmann Gussa, í sögunni „Þú ert frábær“.  Eftir kvöldsönginn kom einn foringjanna inn með sængina sína og spurði hvort ekki ætti að fara að byrja á bíómyndinni – spruttu stúlkurnar upp, háttuðu sig, sóttu sængur/kodda/svefnpoka og komu sér vel fyrir í kvöldvökusalnum.  Myndin Prinsessan og froskurinn var sett af stað og fljótlega fengu stúlkurnar popp og ávexti þær sem vildu.  Horft var á helming myndarinnar, hinn geymdur þar til seinna í dag á veisludegi.  Voru það þreyttar og sælar stúlkur sem skriðu í bólið um kl.22 og ró komst fljótlega í húsið enda þreyttar stúlkur ef skemmtilegan dag.
Kæru foreldrar/forráðamenn, þið getið verið stolt af stúlkunum ykkar, þær eru ótrúlega duglegar og kurteisar, svo ekki sé talað um hvað þær eru skemmtilegar.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719599188663

Kveðja úr Ölver, þar sem sólin er nú loks farin að skína :o)
Brynja Vigdís, forstöðukona