Það kom flottur hópur upp í Ölver í gær til að dvelja hér saman fram á sunnudag. Það á bæði við um barnahópinn og foringjahópinn. Börnin eru jákvæð, virk og áhugasöm og samveran með þeim því einstaklega skemmtileg. Já, og ég verð eiginlega bara að segja að það á líka við um annað starfsfólk sem er hér þessa vikuna. Þetta verður eitthvað!

Dagurinn í gær var nokkuð hefðbundinn komudagur í Ölveri. Stelpurnar byrjuðu á að safnast saman inni í matsal þar sem þær kynntust starfsfólkinu og reglum staðarins og var skipt í herbergi. Að sjálfsögðu fengu allar stelpur að vera saman í herbergi. Þegar allar voru svo búnar að koma sér vel fyrir og fá aðstoð við að búa um sig var boðið upp á skyr og pítsabrauð í hádegismatinn. Eftir hann fóru þær saman í herbergjum í ratleik um svæðið og kynntust krókum þess og kimum. Það er gott að byrja á því og átta sig vel á aðstæðum.

Það var að sjálfsögðu nýbakað í kaffinu eins og venjulega. Þar sem veðurspáin er frekar ótraust og ekki sú besta fyrir vikuna ákváðum við að nýta það að það var hlýtt og stillt í gær og drifum þær allar niður að á eftir kaffi. Þær máttu fara í sundfötin innanundir og taka með sér handklæði ef þær vildu og svo fengu allir að busla eins og þeir treystu sér til. Sumir voru kaldari en aðrir og dýfðu sér vel ofan í ánna. Aðrir stungu bara tánum í. Allar fengu þær góðan tíma í útivist og hreyfingu.

Þegar heim kom æfðu stelpurnar í Fjallaveri atriði fyrir kvöldvöku kvöldsins og hjá öðrum var frjáls tími þar til boðið var upp á steiktan fisk og kartöflur í ofni. 

Eftir kvöldvökuna gerðist það svo að dágóður hópur foringja hvarf! Þær höfðu þá brugðið sér í allra kvikinda gervi og falið sig hér og þar í skóginum. Herbergin fengu svo nokkarar vísbendingar um hver yrði þeirra bænakona og fóru út af örkinni til að finna sína. – Þær voru nú sumar aðeins blautar í fæturna og kannski í smá blautum náttfötum þegar þær komu inn en svoleiðis leysir maður nú bara einhvern veginn hér í sveitinni.

Það gekk svo bara vel að koma þeim í ró m.v. að þetta hafi verið fyrsta kvöldið. Það voru alveg nokkur tár að þerra og sumar sem þurftu stuðning við að slaka á og gleyma sér fyrsta kvöldið á nýjum stað. Ég verð alltaf jafn þakklát þegar ég fylgist með dásamlegu foringjunum okkar mæta stelpunum hverri og einni og styðja þær í gegnum tímana sem eru krefjandi fyrir þær af kærleika og þolinmæði. Flestar voru sofnaðar á milli ellefu og hálf tólf.

Dagurinn í dag gengur vel og mikið fjör í hópnum. Það er margt spennandi á planinu – sem þið fáið að lesa meira um á morgun!

Endilega fylgist með myndum á myndasíðunni.

Kveða, Ásta Sóllilja. Forstöðukona.