Annar dagurinn í þessum skemmtilega ævintýraflokki gekk vel. Stelpurnar vorum vaktar um 09:00 með ljúfri tónlist og fengu góðan tíma til að vakna og klæða sig áður en boðið var upp á morgunmat. Í morgunmat í Ölveri er boðið upp á serjós og kornflex og svo auðvitað gamla góða hafragrautinn fyrir þær sem vilja.

Eftir morgunmatinn og fánahyllingu fengu stelpurnar tíma til að taka til í herbergjunum sínum. Það er nefnilega keppni í gangi alla vikuna á milli herbergja. Á hverjum degi eru gefnar stjörnur fyrir umgengni í herberginu og hversu vel gengur að koma á ró á kvöldin. Því þarf að passa að gefa þeim tíma til að ganga frá. Eftir tiltektina hófst morgunstundin. Þar fengu stelpurnar smá fræðslu um Kristrúnu Ólafsdóttur sem stofnaði Ölver og sögu starfsins sem hér fer fram. Síðan var fjallað um mikilvægi þess að iðka þakklæti í lífinu. Stelpurnar taka vel undir í söng og hlusta vel og virkilega gaman að eiga þessa stund með þeim.

Eftir morgunstundina hófst svo brennó keppni sem mun standa út flokkinn. Liðin í þessum flokki heita eftir þekktum íþróttakonum úr hinum ýmsu greinum. Við erum með Annie Mist, Söru Björk, Simone Biles, Serena Williams, Völu Flosa og Katrínu Tönju. Allt flottar fyrirmyndir sem er gaman að heiðra með þessum hætti. 

Dagskráin að framan er hefðbundin morgundagskrá sem er keyrð alla dagana eins. 

Dagskráin eftir hádegismat (hakk og spagettí) voru svo Ölversleikar þar sem keppt var í klassískum Ölversgreinum eins og sippi, rúsínuspýtti, ljóðsnilld, grettum og brosum, stívélasparki, lautarhlaupi o.s.fv. Það ringdi aðeins á hópinn en veðrið var engu að síður stillt og hlýtt og bara gott að vera úti við.

Eftir nýbakað í kaffinu (sjónvarpskaka og bananabrauð) var boðið upp á brjóstsykursgerð og heita pottinn, twister, skotbolta og fótbolta.

Eins og þið sjáið er alltaf nóg að gera í Ölveri. Kvöldið var ekkert öðruvísi. Kvöldmaturinn var grænmetisbuff með grjónum og salati. Síðan var kvöldvaka þar sem bæði Fuglaver og Lindarver buðu upp á skemmtileg atriði og mikið var sungið. Í lok kvöldvökunnar kom svo Dumbledore úr Harry Potter myndunum inn í kvöldvökusalinn!!! Það er nú ekki leiðinlegur gestur! Hann sagði stelpunum að það væru komnar vitsugur í Ölver. Þær þyrftu að fara út og finna Harry Potter sem myndi gefa þeim ör á ennið, Hermione sem myndi láta þær hafa töfrasprota og kenna þeim töfraþulu og hitta svo sjálfan Dumbledore aftur til að fá inngöngubréf í Hogwartsskóla. Upphófst þá mikill kvöldeltingaleikur um allan skóg þar sem stelpurnar reyndu að leysa þessi verkefni án þess að svartar vitsugur næðu í skottið á þeim. Þetta var mjög skemmtilegur leikur og á endanum, þegar allar voru komnar með aðgang að Hogwartsskóla, voru grillaðir sykurpúðar. Það kom reyndar alveg grenjandi rigning yfir sykurpúðagrillinu sem gerði þetta svooolítið flókið. En allir sem vildu náðu að grilla amk tvo sykurpúða áður en slökknaði endanlega í kolunum svo þá var bara notalegt að komast inn í ávexti og háttatíma.

Allar stelpurnar sofnuðu fljótt og vel eftir langan og skemmtilegan dag – sem er gott, því við ætlum sko ekkert að slá neitt af í hamaganginum. Framundan er Top Model sköpunarkeppni, vatnsstríð og jafnvel eitthvað fleira skemmtilegt. Meira um það á morgun.

Minni á myndirnar á myndasíðunni okkar!

Ásta Sóllilja.