Í ævintýraflokki í Ölveri er oft mikið sprell – og það má sko segja um gærdaginn að það hafi verið sprellað svolítið. Dagurinn byrjaði á því að foringjarnir fóru með látum inn á öll herbergin og vöktu stelpurnar og smöluðu beint upp í kvöldvökusal í náttfatapartý. Þær voru svona í mismikilli stemmningu þegar tónlistin ómaði og átti að fara að dansa en við fengum þær samt til að dilla sér við tvö lög á meðan þær nudduðu stírurnar úr augunum. Svo var öllum bara smalað aftur niður í að klæða sig og bursta og mæta í morgunmat. – Þær eru nú sumar af þessum vönu svolítið snúnar yfir því að þetta hafi verið náttfatapartý flokksins… en við sjáum nú til með það. Það er kannski allt í lagi að þær haldi það í smá stund. 😉

Eftir hefðbundna morgundagskrá var boðið upp á grjónagraut í hádegismat. Svo strax eftir hádegismatinn var komið að Top Model keppninni. Hún gengur þannig fyrir sig að herbergin velja eitt módel og fá svolítinn efnivið frá okkur til útbúa módelið í hátískubúning. Efniviðurinn er t.d. Bandspotti, kaffipoki og svartur ruslapoki. Allir fá það sama og mega ekki nota neitt annað en það og svo það sem þær finna úti í náttúrunni. Þær fá svo dágóðan tíma til að útbúa módelin þar til síðan er haldin Top Model keppni í matsalnum með alvöru runway og vindvél og allt saman. Það var rosalega gaman að sjá sköpunarverkin þeirra og ég hvet ykkur til að skoða afraksturinn í myndasafninu.

Í kaffinu var dýrindis nýbakað að vanda. Hér er allt bakað mjólkurlaust þ.a. sem flestir geti bara fengið eins kaffibrauð og svo er jafnvel bakað glúteinlaust, eggjalaust, eða hveitilaust með öllu ef þess þarf. Allir fá því eitthvað gott með kaffinu.

Eftir kaffi var stelpunum sagt að búa sig fyrir aðra gönguferð í ánna, þ.e. ívaðföt. Þær komu svo út á tröppur og voru látnar stilla sér upp fyrir myndatöku. Um það leyti sem átti að smella af fengu þær yfir sig vatnsgusur af svölunum fyrir ofan sig. Það var blásið í vatnsstríð!! 500 vatnsblöðrur fullar af vatni voru tilbúnar niðri í laut og á meðan þær börðust með vatnsblöðrum settum við upp Slip n’ Slide rennibrautina, drógum fram vatnsslöngu og fötur og opnuðum pottinn. Næsti klukkutíminn fór bara í allsherjar busl og vitleysisgang. Mikið var það gaman. Svo gaman að meira að segja sólin ákvað að taka þátt. Það er hugsanlegt að ein forstöðukona og einn foringi hafi endað í öllum fötunum í heita pottinum og að einhver börn hafi kannski blotnað meira en þau sáu fyrir – en enginn er verri þó hann vökni. Eftir busl og pott fengu svo þeir sem vildu heitt kakó í eldhúslúgunni til að ylja blautum kroppum.

Í kvöldmatinn var svo tómatsúpa með pasta, snakki og rifnum osti og kvöldvakan fór svo fram með hefðbundnu sniði. Börnin fóru á kostum í skemmtiatriðum kvöldsins svo að starfsfólkið skemmti sér ekki síður en börnin.

Í lok kvöldvöku birtust svo einhver fýlupokabörn í kvöldvökusalnum og lýstu því yfir að þessar sumarbúðir væru hundleiðinlegar og að þær ætluðu sko að fara heim… nema þær fengju að horfa á bíómynd. Það var þá ekki annað að gera en að verða við því bara. Allar sóttu náttföt og sængur og við kveiktum á fjölskyldumyndinni Cheaper by the Dozen á skjávarpanum í stofunni. Auðvitað var boðið upp á popp í öllu kósýinu og því var alvöru bíóstemmning í salnum. Þegar stelpurnar voru svo komnar í ró settust foringjarnir með gítar á ganginn og sungu þær síðustu í svefn. – Þó þær hafi sofnað vel voru þær nú samt þreyttar þegar þær voru vaktar í morgun klukkan níu. Kannski við leyfum þeim að sofa aðeins út á morgun.

Veðrið leikur við okkur í dag svo við stefnum á hreyfingu og útivist. Hvað gert verður kemur í ljós í frétt morgundagsins!

Hlekkur á myndir úr flokknum eru hér.

Kveðja, Ásta Sóllilja. Forstöðukona.