Við fengum dásamlegt veður í gær og ákváðum að nýta það vel til útiveru. Eftir hefðbundna morgundagskrá og fiskibollur í hádeginu var því hóað í fjallgöngu í góða veðrinu. Gengið var inn með fjallinu okkar og að skemmtilegri notalegri laut þar sem oft má finna krækiber og hentugt er að taka pásu. Svo fóru þær stelpur upp í fjallið sem sem treystu sér til. Það segir mikið um þennan hóp að það voru nánast allar stelpurnar sem fleygðu sér í það verkefni. Það er sko ekki alltaf þannig!
Eftir fjallgönguna komu stelpurnar heim í kaffi og við ákváðum að hafa bara kaffið úti til að nýta veðrið. Dagskráin eftir kaffi var svo hæfileikakeppni þar sem stelpurnar buðu upp á frábæra dagskrá. Við fengum að sjá söng og hljóðfæraleik inni í sal, frábærar teikningar, handstöður og meira að segja ræðuhöld. Síðan færðist keppnin niður í laut þar sem fram fóru hópdans og fimleikaatriði og loks var hópnum boðið í íþróttahúsið þar sem eitt herbergið hafði sett upp draugahús. Mjög hugmyndaríkar og flottar stelpur í þessum flokki!
Þegar hæfileikakeppninni lauk var frjáls tími, nema fyrir stelpurnar í Hlíðarveri sem fengu aðstoð við að undirbúa skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna.
Eftir kvöldvöku og þegar allir voru búnir að fá ávexti, hátta og bursta og komnir upp í ból var loksins blásið í alvöru náttfatapartýið! Það var alveg svakalegt stuð og stelpurnar tóku svo mikinn þátt. Partýið endaði svo með ís og sögu… og svo fóru allir aftur að bursta og upp í rúm í ró. Nóttin gekk vel – og auðvitað leyfðum við þeim að sofa hálftíma lengur í morgun eftir allt þetta kvöld-sprell. – Þær þurftu sko á því að halda!
Í dag er veisludagur, síðasti heili dagurinn í þessu flokki. Það er góð stemmning í hópnum og mikil og skemmtileg dagskrá framundan. Greinilegt að þær eru mikið til í að kreista út úr þessu allt sem hægt er.