Veisludagur – Síðasti heili dagurinn í hverjum flokki er veisludagur. Þann dag klárast brennókeppnin fyrir hádegi og lá því fyrir þann dag að Simone Biles hefði borið sigur úr býtum þennan flokkinn. Í hádegismatinn fengu stelpurnar svo pastasalat og brutust út mikil fagnaðarlæti í matsalnum þegar það var tilkynnt.

Eftir hádegi höfðum við gert ráð fyrir rigningu. Reyndar var með þá spá eins og aðra veðurspá þennan flokkinn að – hún stóðst ekki. Við vorum heppnar að því leyti að veðrið var einhvern veginn alltaf betra en spáin sagði til um. – Engu að síður létum við skipulagða dagskrá eftirmiðdagsins halda sér. Stelpurnar voru kallaðar inn í matsal þar sem tók á móti þeim tollvörður og þær fengu blöð og liti til að gera sér vegabréf. Þegar vegabréfin voru fullgerð var bundið fyrir augun á þeim og þær héldu af stað í ævintýragang í smærri hópum. Ævintýragangur í Ölveri fer þannig fram að allt tiltækt starfsfólk bregður sér í líki einhverrar ævintýraveru og kemur sér fyrir í einu herbergja hússins. Stelpurnar eru svo leiddar á milli herbergja með bundið fyrir augun og í herbergjunum hitta þær fyrir ævintýraverurnar og leysa ýmsar þrautir. T.d. hitta þær Gullbrá og hjálpa henni að smakka grauta úr þremur skálum til að finna þann rétta. Svo hitta þær Strump sem kennir þeim að dansa macarena-dansinn, Völu-væluskjóðu inni á baðherbergi o.s.fv. Best að segja sem minnst svo þetta komi áfram á óvart fyrir þær sem ekki hafa prófað. 🙂

Eftir kaffi fóru stelpurnar svo allar í pottinn eða sturtu og svo var þeim gefinn góður frjáls tími sem jafnframt nýttist til að flétta allar sem vildu fá fléttur (þegar mest var voru 7 starfsmenn að störfum í fléttustöðinni) og fara í sparifötin og punta sig. Síðan var blásið til veislu!! – Pítsur voru snæddar í fallega skreyttum matsalnum og Rice Krispies í eftirrétt. Kvöldvakan var svo stútfull af sprenghlægilegum atriðum í umsjón foringjanna sem er nú líklegast bara besti áhugamannaleikhópur á landinu.

Eftir langa kvöldvöku fóru þreyttar og sáttar stelpur inn á herbergi til að eiga síðustu kvöldstundina með sinni bænakonu. Þær sofnuðu glaðar og ánægðar með kvöldið – og sumar eftirvæntingarfullar að komast heim og segja sínum nánustu frá ævintýrum vikunnar. Öll heimþrá er löngu horfin úr hópnum en ég fann að sumar þeirra voru samt orðnar spenntar að geta deild upplifun sinni með sínu fólki. Það er gott og bara einmitt eins og það á að vera.

Brottfarardagur – Brottfarardagur gekk mjög vel. Eftir morgunmat pökkuðu stelpurnar allar sínu dóti með aðstoð foringjanna og var allur farangur kominn út þegar morgunstundin hófst um ellefu leytið. Á morgunstundinni ræddum við mikilvægi þess að gleyma ekki lærdómnum úr Ölveri eftir að heim er komið. Það er auðvelt að vera „nálægt“ Guði á stað eins og Ölver er en oft erfiðara að muna eftir honum í annríki hversdagsleikans. Stelpurnar voru hvattar til að hafa leiðsögn Jesú í huga í öllum sínum daglegu verkefnum og sinna þeim í kærleika til annarra og í trausti þess að þær séu fullkomlega frábærar eins og þær eru og elskaðar alla daga í öllum aðstæðum. Vonandi hafa þær þessi skilaboð í hjartanu þegar þær takast á við krefjandi hversdagsleikann.

Eftir morgunstundina var auðvitað foringjabrennó þar sem foringjaliðið atti kappi við Simone Biles og svo við allan flokkinn. Að sjálfsögðu unnum við… annars hefði ég líklega ekki skrifað um þetta hér. Brennólið foringjanna í Ölveri er líklega eitt þjálfaðasta brennólið landsins og ég leyfi mér að segja að væri keppt í brennó á ólympíuleikunum – myndum við vinna.

Við grilluðum svo pylsur og borðuðum úti í hádeginu og buðum svo upp á skotbolta og leiki í lautinni. Kl. 14:00 var svo komið að kveðjustund. Þar fór fram verðlaunaafhending þar sem tilkynnt var um úrslit hinna ýmissu keppna flokksins. Það vildi svo skemmtilega til að allir fengum amk ein verðlaun! Svo sungum við með þeim lokalagið og sýndum þeim myndband sem klippt hafði verið saman úr flokknum.

Tíminn í Ölveri var mér dásamlegur núna eins og alltaf. Verkefnin voru sum hver krefjandi en öll gefandi. Ég var umkringd dásamlega færu og kærleiksríku starfsfólki sem greinilega starfar hér af hugsjón og gefur sig allt í verkefnin, hversu stór eða smá sem þau eru. Ég fer úr Ölveri undursamlega þakklát fyrir þennan fallega stað og einstaka mannauð sem Guð hefur gefið okkur til að skapa ógleymanlegar stundir fyrir börnin sem hingað koma. Ég get ekki beðið eftir að koma aftur!

Kveðja, Ásta Sóllilja, forstöðukona.