Það er búinn að vera annasamur fyrsti dagur hjá okkur í Ölveri! Veðrið hefur leikið við okkur og voru stelpurnar mjög duglegar að leika sér úti (við settum sólarvörn á þær allar fyrst) Stelpunum var síðan skipt í herbergi og farið var yfir nokkrar mikilvægar reglur. Allar vinkonur fengu að vera saman í herbergi, svo er bara að kynnast hinum og eignast fleiri vinkonur! Í matinn var skyr og pizzabrauð og eftir mat var farið í gönguferð um svæðið. Síðan var farið í leiki á fótboltavellinum til að kynnast betur. Í kaffitímanum var bananabrauð og dýrindis sjónvarpskaka. Það sem við gerðum eftir kaffi vakti mikla lukku, en við gerðum Tie Dye derhúfur og handklæði. Fyrir þau ykkar sem ekki vita hvað það er, þá lituðum við hvítar derhúfur og hvít handklæði í allskonar litum. Þetta þarf svo að liggja yfir nótt og á morgun munum við skola þetta og sjá afraksturinn! Þetta var svo sannarlega skemmtilegt. Hoppukastalinn var líka í gangi og frjáls tími. Tvö herbergi fengu að gera stuttmynd, svo munu hin herbergin gera stuttmynd næstu daga. Þessar stuttmyndir verða sýndar á kvöldvöku annað kvöld. 

Í kvöldmatinn var fiskur í orly degi, kartöflubátar, kokteilsósa og grænmeti. Stelpurnar borðuðu vel og fengu svo að fara í smá frjálsan tíma. Þegar þessi frétt er skrifuð er kvöldvaka í gangi. Þar er sungið, horft á skemmtileg foringjaleikrit og hlustað á hugleiðingu. Eftir kvöldvökuna fara þær að hátta, bursta og pissa áður en bænakonan kemur inn á herbergin. Við köllum foringjana bænakonur á kvöldin. Einn foringi kemur inn í hvert herbergi, kynnist stelpunum, fer kannski í lítinn leik, les sögu og fer með kvöldbænir. Fyrsta nóttin getur verið erfið fyrir sumar stelpur. Við pössum upp að þær sofi allar vært í nótt. 

Á morgun verður skemmtilegur dagur, góða nótt og takk fyrir daginn. Yndislegar stelpur sem þið eigið <3 

Kveðja, Jóhanna Elísa