Í morgun vöknuðum við klukkan 8:30 og fengum okkur morgunmat. Á morgnana er dagskráin yfirleitt sú sama. Við fórum út í fánahyllingu þar sem við sungum fánasöng á meðan foringi setti upp fánann. Svo fengu stelpurnar tíma til að taka til í herbergjunum sínum áður en morgunstund byrjaði. Á morgunstund sungum við og lærðum aðeins um jesú og biblíuna. Eftir morgunstund fengu stelpurnar val um að fara í brennókeppni eða að föndra niðri í matsal. Svo var komið að hádegismat en það var hakk og spagettí í matinn. Við fórum síðan í göngu út fyrir svæðið upp að skemmtilegum steini ekki svo langt frá Ölveri. Svo fengum við jógúrtköku og pizzasnúða með kaffinu! Svo gott. Síðan var komið að því sem margar stelpur biðu spenntar eftir, en það var að skoða hvernig Tie Dye handklæðin og derhúfurnar komu út. Það var svooo flott og kom svo vel út! Þær skoluðu þetta aðeins og hengdu upp á þvottasnúrur, en svo þarf að þvo handklæðin í þvottavél þegar þær koma heim á sunnudag, á köldum þvotti og ekki með neinum öðrum þvotti. Þannig næst mesti liturinn út svo það liti ekki út frá sér. Tvö herbergi gerðu líka stuttmyndir í dag og þrjú herbergi fengu að fara í pottinn. Hin þrjú herbergin fá svo að fara í pottinn á morgun. Svo var komið að kvöldmat og þær fengu grænmetisbuff og borðuðu vel af því, en hópurinn er mjög duglegur að borða!

 

Svo var komið að kvöldvöku þar sem var sungið, hlegið og haft gaman. Herbergin sem gerðu stuttmyndir í gær fengu að sýna afraksturinn, virkilega skemmtilegt. Stelpurnar héldu svo að þær ættu að fara að hátta, bursta og pissa en lítið vissu þær að það var náttfatapartý í vændum. Þær dönsuðu, sungu og þegar þetta er skrifað eru þær að horfa á leikrit. Þær fá síðan ís og hlusta á rólega kvöldsögu áður en þær fara í háttinn.

Góða nótt!

Jóhanna Elísa