Dagurinn í dag er búinn að vera frábær! Morguninn var hefðbundinn að venju. Eftir hádegismat var farið í gönguferð niður að læk sem er skammt frá Ölveri. Stelpurnar undu sér vel við lækinn, þær vöðuðu og létu sólina sleikja sig. Við pössuðum að sjálfsögðu að allar væru með nóg af sólarvörn! Þegar heim var komið úr ferðinni fengu þær kaffitíma. Í kaffitímanum var kryddbrauð og rice krispies kökur. Eftir kaffi hélt skemmtilega dagskráin áfram. Allar stelpurnar fengu að fara í pottinn og í Slip’n Slide rennibraut! Það er uppblásin rennibraut sem við setjum í brekkuna við hliðina á heita pottinum. Efst er slanga með vatni og svo er sett sápuvatn á brautina. Stelpurnar renndu sér og skemmtu sér konunglega. Við gerðum líka brjóstsykur. Það var virkilega spennandi og stelpurnar fengu að velja tvö bragðefni á mann. Bragðefnin voru t.d. hindberja, epla, jarðarberja og tutti frutti bragð. Þær settu brjóstsykurinn í litla poka sem þær fá núna á eftir þegar við ætlum að horfa á bíómynd. Svo var komið að kvöldmat þar sem var mjög gott ostapasta með hvítlauksbrauði, mmm! 

Kvöldvakan var skemmtileg að venju, síðustu tvær stuttmyndirnar voru sýndar og þær sungu og höfðu gaman. Í kvöld er síðan bíómyndakvöld, en horft verður á skemmtilega Disney mynd. Þær fá brjóstsykurinn og líka ávexti. 

Frábær dagur að baki í yndislegu veðri. Nú er farið að líða á seinni hlutann og lítið eftir af frábærlega skemmtilegum flokki. 

Jóhanna Elísa