Dagur 5 og 6
Í gær var veisludagur, síðasti heili dagurinn okkar! Morguninn var hefðbundinn að venju og eftir hádegismat var hæfileikasýning. Stelpurnar sýndu frá hæfileikum sínum sem voru af margskonar toga. Það var sungið, dansað, teiknað og sýnd töfrabrögð svo eitthvað sé nefnt! Foringjarnir brugðu sér í búninga sem kynnar og dómarar. Eftir vel heppnaða hæfileikasýningu var komið að ljúffengri gulrótarköku og kanillengjum í kaffítímanum. Eftir kaffi fóru allar stelpurnar í pottinn og/eða sturtu og svo var kósýgangur. Kósýgangur er það þegar stelpurnar geta boðið upp á eitthvað sniðugt inní herbergi. Það opnuðu því nokkrar hárgreiðslu- og nuddstofur hérna í gær og flökkuðu stelpurnar á milli herbergja til að slaka á. Svo var komið að veislukvöldmatnum. Búið var að skreyta salinn voða fínt og raða borðunum öðruvísi en venjulega. Í matinn var pizza og djús og í eftirrétt var ís. Svo var komið að veislukvöldvöku en þá er sko sungið og hlegið mikið. Foringjarnir brugðu sér í allskonar búninga og hlutverk og sýndu hvert leikritið af fætur öðru við mikinn fögnuð stelpnanna.
Í dag er brottfarardagur. Stelpurnar eru búnar að pakka og fara í foringjabrennó, en í vikunni var brennókeppni á morgnana fyrir þær sem vildu. Liðið sem vann fékk að keppa við foringjana í morgun og svo fengu allar stelpurnar að keppa á móti foringjunum. Þær fengu líka framkallaða mynd af herberginu sínu til að setja í myndarammana sem þær skreyttu fyrr í vikunni. Nú eru þær að borða pulsur í hádegismat og fara svo fljótlega á lokastund. Á lokastundinni munum við syngja, heyra sögu og svo verður tilkynnt hvaða herbergi vann hegðunarkeppnina, keppni sem er búin að vera í gangi alla vikuna. Þær fá líka að vita hver leynivinurinn sinn er en þær eru búnar að vera ótrúlega duglegar að föndra eitthvað fallegt handa leynivininum sínum í vikunni. Svo hoppum við upp í rútu rétt fyrir klukkan þrjú og komum í bæinn klukkan fjögur.
Ein skilaboð til ykkar, sem munu líka koma í tölvupósti til allra á morgun, varðandi handklæðin sem við lituðum. Það þarf að setja handklæðin á kaldan þvott í þvottavél, bara eitt og sér. Sé það sett með öðru er hætta á að það liti út frá sér. Eftir kalda þvottinn ætti að vera í lagi að setja handklæðið með öðrum flíkum í þvottavél. Í tölvupóstinum sem þið fáið á morgun verða líka tenglar á stuttmyndirnar sem stelpurnar gerðu, en stelpurnar hafa óskað eftir því að geta séð myndböndin þegar þær koma heim.
Annars er þessi flokkur búinn að vera einstakur. Mjög góður andi er í hópnum, stelpurnar alveg yndislegar og hafa fylgt fyrirmælum vel og skemmt sér konunglega í því sem við höfum tekið fyrir hendur. Þær hafa haft gaman af því að dunda sér inn á milli dagskrárliða og notið þess að vera úti í náttúrunni. Frábær flokkur á enda og við starfsfólkið gætum ekki verið ánægðari með þennan yndislega hóp. Þið eigið svo sannarlega frábærar stelpur og við vonum innilega að við fáum að hitta þær aftur á næsta ári!
Kær kveðja
Jóhanna Elísa