Fyrsti heili dagurinn í flokknum gekk rosa vel. Flestir dagar byrja eins hér í Ölveri; vakning – morgunmatur – tiltekt í herbergjum – biblíulestur og svo brennó. Út alla vikuna er ss brennó-mót. Við erum búnar að skipta þeim upp í brennólið, ekki herbergin saman, heldur reynt að dreifa eftir aldri og getu svo að liðin séu sem jöfnust. Sigurliðið keppir svo brennóleik við foringjana seinasta daginn. 

Hádegismatur og svo smá frjáls tími, eða þangað til við fórum í gönguferð niður að ánni sem er í korters göngufjarlægð. Þar var sullað og vaðið, buslað og synt. Mjög góð stemning og sólin kíkti meira að segja á okkur. 

Já! talandi um það, það hefur verið soldið grátt hérna hjá okkur báða dagana. Stöku rigning en ekkert úrhelli hingað til. 7-9-13. Sólin kíkir á leiki mannanna stöku sinnum og það er smá gola. Vonandi verður stuttermabola-veður einhverntíman í vikunni en spáin lofar ekki góðu. 

Eftir ánna var kaffi; Ölversbollur og súkkulaðikaka. Í hópnum var afmælisbarn sem fékk kórónu og blés á kerti undir afmælissöng. Alltaf sport að eiga afmæli í sumarbúðum. Mæli með! Eftir kaffi var hæfileikasýning. Mörg flott atriði þar sem stelpurnar sungu, dönsuðu, sögðu brandara og sýndu frumsamin leikrit.

Potturinn var í boði fyrir þær sem vildu eftir sýninguna, sem þær þáðu flestar. Kvöldmatur og svo fjáls tími fram að kvöldvöku. Þar fengum við að sjá leikrit, syngja lög og heyra hugleiðingu. Í lokinn fengu þær svo ansi furðulega heimsókn. Albus Dumbledore labbaði inn og tilkynnti þeim að þær hefðu allar fengið inngöngu inní Hogwarts-skóla. Þær þyrftu bara að finna Ron Weasley (sem gaf þeim töfrasprota), Harry Potter (sem teiknaði ör á enni þeirra) og Hermione (sem gaf þeim inngöngubréf í skólann). En allt þurfti þetta að gerast án þess að vitsugurnar myndu ná þeim. Æsispennandi og skemmtilegur leikur. 

Þær komu svo inn og fengu vöfflur með rjóma og glassúr. Fljótar að sofna þetta kvöldið skal ég segja ykkur, og steinsváfu alla nóttina.

Dagur 3 (miðvikudagur) fer vel af stað. Mikil dagskrá og skemmtun í uppsiglingu. Meira um það á morgun. 

Túdúlú

Gríma 🙂


P.S. Hér er ekkert lúsmý so far! 😀 Þær eru yfirleitt að lenda hérna hjá okkur í lok júní. Þessi flokkur hefur sloppið við þær hingað til, en ég lofa engu. Vonandi fá þið óútbitin börn heim á sunnudaginn.