Dagur 3 (miðvikudagur) gekk vel, en ekki hvað? Ekki stakt auga opið þegar þær voru vaktar kl 9. Morgunmatur, tiltekt, biblíulestur, brennó og svo hádegismatur.
Eftir mat voru Ölversleikar. Þeir eru haldnir í öllum ævintýraflokkunum og eru mjög vinsælir. Margar reyndar Ölverstelpur biðu spenntar eftir þessum viðburði. Eins og svo mörgu reyndar. Í Ölversleikunum voru herbergin saman í liði og fóru á 6 stöðvar þar sem biðu þeirra 6 skemmtilegar og öðruvísi þrautir. Þær voru m.a. stígvélaspark, rúsínuspýtt, sippkeppni, lautarhlaup, broskeppni, jötunfata og ljóðakeppni. Allt mjög framandi og fyndið.
Í kaffinu fengum við skinkuhorn og banana skúkkulaði köku. Mjög vinsælt.
Eftir kaffi héldum við Ölvers next top model. Flestar mjög spenntar fyrir því líka. Hvert herbergi fékk einn plastpoka, garn og skæri til þess að búa til frumlegt outfit. Það mátti líka nota allt sem maður gat fundið úti í náttúrunni. Við sáum mjög skemmtilegar og frumlegar hugmyndir og módelin hvert öðru flottara.
Svo lærðu stelpurnar mjög mikilvæga lexíu. Að vera alltaf í bílbelti. Veltibíllinn kíkti ss í heimsókn til okkar og þær fengu allar að fara 2 ferðir. Ótrúlega gaman og þær ekkert smá sáttar. Kvöldmatur og svo kvöldvaka. Tvö herbergi voru með leikrit, við lærðum fleiri lög og heyrðum hugleiðingu.
Rakleitt uppí rúm eftir kvöldvöku. En svo bara rakleitt uppúr því aftur því það var NÁTTFATAPARTÝ! Dansað og trallað útí nóttina, ásadans, leikrit og íspinnar. Þær voru ekki lengi að sofna skal ég segja ykkur og voru allar sofandi í dag þegar við vöktum þær.
Ég held að lúsmýið sé að nálgast. Hvorki ég né annað starfsfólk finnur fyrir flugunum, né eru bitnar. En nokkrar stelpur hafa sýnt mér bit. Held að það gæti mögulega verið bara eitthvað annað sem bítur þær útí skógi. Venjulegt mý, eða eitthvað. Amk ekkert inní húsinu. Mér finnst þessi bit mun minni en lúsmý bitin.
Sjáum bara til, vonandi verður þetta ekki verra.
Jæja, verð að rjúka. Við erum nefnilega að fara í ferð í dag. Fáum rútu til að taka okkur upp í Vatnaskóg þar sem við ætlum að fara á bátana og fara í flotta flotta íþróttahúsið þeirra. Drekkum svo kaffi þar og förum svo í sund á Hlöðum.
Read all about it! Á morgun (;
Þangað til
Gríma Katrín
Forstöðukona