Góðan daginn fallega fólk. Allt gott að frétta héðan út Ölveri. Þjóðhátíðardagurinn gekk vonum framar þrátt fyrir grátt veður. Við vöktum þær með Hæ hó laginu, og vorum búnar að skreyta allt húsið. Hefðbundin morgundagskrá, en eftir mat keyrðum við fjörið í gang. Andlitsmáling og höfuðfata-föndur og svo skrúðganga um sumarbústaðasvæðið hér fyrir neðan okkur. Þegar við komum til baka var bakarinn okkar búin að baka og skreyta ótrúlega flotta og góða 17.júní köku. En maður drekkur ekki vatn með 17.júní köku! Það dugar ekkert minna en KRAP!!! (brjáluð fagnaðarlæti) Fallega blátt og geggjað gott krap frá Bínóís á Háaleitisbraut. #samstarf. Mæli með. Þjóðsöngurinn var borðsálmurinn þennan daginn og fjallkonan fríð las fyrir okkur ljóð.
Eftir kaffi var svo komið að því sem þær hafa suðað um alla vikuna. Brjóstsykursgerð. Við eigum sem sagt brjóstsykursgerðarsett og þær hefðu verið heldur betur móðgaðar hefðu þær ekki fengið að búa sér til. Pottur og svo kvöldmatur. Kvöldvaka þar sem tvö seinustu herbergin sýndu sín leikrit og svo mátti velja; annað hvort fara út í “kvöldbrennó” eða (fyrir þær sem voru meira búnar á því) mátti vera inni í matsal og búa til kókoskúlur, gera salinn kósy og undirbúa kósýkvöld. Svo komu brennóstelpurnar yfir og við áttum rólegt kvöld saman, þar sem stelpurnar fengu kókoskúlurnar, meira krap og smores (sykurpúði ofaná kexi, hitað í ofni). Bara smá sykur svona rétt fyrir svefninn. Alltaf góð hugmynd.
Ég trúi ekki að ég sé að skrifa þetta, en sem betur fer var rigning í gær. Það var ekkert mjög skemmtilegt í skúðgöngunni, en það var gott um kvöldið því þá er minna um lúsmý. Þær voru ekki jafn mikið bitnar í morgun, en samt smá.
Núna er komin veisludagur og í kvöld verður veislukvöldvaka (mega stuð). Frjáls tími, pottur, fléttur og kaffi coming up. Meira um það á morgun.
Talandi um morgundaginn. Rútan fer héðan kl 15 á morgun (SUNNUDAG). Verðum að mæta á Holtaveg 28 um kl 16. Sjáumst hress
Yours truly
Gríma Katrín